Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Benjamín Netanjahú óskar eftir friðhelgi

02.01.2020 - 00:27
epa08098033 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu speaks during a press conference  in Jerusalem, 01 January 2020.  Reports state that Netanyahu is expected to announce tonight if he will file a request for legal parliamentary immunity from the Knesset (Israeli Parliament) to prevent his prosecution. Reports on 21 November 2019 stated that Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu has officially been charged by the attorney general in a number of corruption scandals. Netanyahu was charged with bribery, breach of trust and fraud.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ætlar að sækjast eftir því að ísraelska þingið veiti honum friðhelgi frá málsókn. Netanjahú tilkynnti þetta á blaðamannafundi í Jerúsalem í dag.

Í nóvember var forsætisráðherrann ákærður fyrir mútur, fjársvik og umboðssvik. Beiðni hans um friðhelgi gæti tafið málsókn um nokkra mánuði. Venju samkvæmt á þingnefnd að taka fyrir slíka beiðni áður en þingið greiðir svo atkvæði um málið. En sökum þess að ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn í Ísrael eftir þingkosningar í september er sú nefnd ekki starfandi. Ekki er hægt að hefja málsókn gegn Netanjahú fyrr en beiðnin hefur verið afgreidd. 

Algjört þrátefli er í ísraelskum stjórnmálum þessi dægrin. Þingkosningar fara fram í mars, sem eru þær þriðju á innan við 12 mánuðum, og vonast Netanjahú til þess að Likud-flokkur hans nái hreinum meirihluta á þinginu í þeim kosningum. Sjálfur kveðst hann saklaus og segist fórnarlamb nornaveiða að hálfu fjölmiðla og vinstri sinnaðra.