Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Benitez nýr forseti Paragvæ

23.04.2018 - 03:07
epa06685366 Paraguayan ruling Partido Colorado (Red Party)'s presidential candidate Mario Abdo Benitez (C) holds his ballot before casting it in a polling station in Asuncion, Paraguay, 22 April 2018. More than four million of Paraguayan voter are
Nýkjörinn forseti Pragvæ, Mario Abdo Benitez, greiðir atkvæði í Ascuncion á sunnudag Mynd: EPA-EFE - EFE
Mario Abdo Benitez, frambjóðandi Colorado-flokksins, vann sigur í forsetakosningum sem fram fóru í Paragvæ á sunnudag. Colorado-flokkurinn er íhaldssamur hægriflokkur, sem verið hefur við völd í Paragvæ um langt árabil. Nýi forsetinn, Benitez, er 46 ára gamall markaðsfræðingur, menntaður í Bandaríkjunum, og fyrrverandi forseti öldungadeildar þingsins. Faðir hans var einkaritari Alfredos Stroessners, sem fór með einræðisvald í Paragvæ frá 1954 til 1988.

Sigur Benitez var aldrei í hættu en þó töluvert minni en spáð hafði verið. Hann fékk 46,5 prósent atkvæða, en keppinautur hans, miðjumaðurinn Efrain Alegre fékk tæp 43 prósent atkvæða. Skoðanakannanir höfðu bent til þess að allt að 20 prósentustigum munaði á þeim.

Paragvæ er eitt fátækasta ríki Suður-Ameríku þrátt fyrir mikinn hagvöxt á síðustu áratugum. Þar búa um 6,7 milljónir manna, og af þeim lifa um eða yfir 40 af hverjum hundrað undir fátæktarmörkum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV