Belginn með burstann biðst afsökunar

Mynd með færslu
 Mynd:

Belginn með burstann biðst afsökunar

12.06.2019 - 14:38
Corentin Siamang, belgíski ferðamaðurinn sem reitti tyrknesku þjóðina til reiði fyrir leik Íslands og Tyrklands í undankeppni EM, hefur beðist afsökunar á framkomu sinni. Siamang otaði uppþvottabursta að einum leikmanna tyrkneska liðsins sem Tyrkir túlkuðu sem kynþáttaníð.

Í myndskeiði sem birtist á netinu má sjá Siamang í landsliðsbúningi Tyrkja. „Þetta átti að vera fyndið. Þetta var ekki tilraun til að móðga Tyrki eða vera með neinn rasisma. “ Myndskeiðið má sjá hér fyrir neðan.

Í viðtali við RTL-fréttastofuna í Belgíu kemur fram að Siamang sé frá Liege. Hann segist hafa fengið fjöldan allan af hótunum eftir að myndskeiðið af honum með uppþvottaburstann birtist og sömuleiðis vinir hans. „Ég er enginn rasisti,“ segir Siamang. „Ég vildi óska þess að þetta hætti. Vinum mínum hefur verið hótað og fólkinu í kringum mig. Þetta eru hótanir um mjög gróft ofbeldi.“

Í frétt RTL kemur fram að Siamang hafi fallist á að ræða málið við fjölmiðla til að reyna að lægja öldurnar. Hann hafi aldrei viljað særa neinn eða sýna Tyrkjum vanvirðingu. Þetta hafi verið tilraun til að vera fyndinn. „Þetta átti ekki vera rasískt.“ Á vef Brussels Time kemur fram að búinn hafi verið til gerviaðgangur á Twitter þar sem átt hafi verið við myndir af honum og uppþvottabursti settur inn á þær.

Uppátæki Siamangs varð jafnframt til þess að blátt bann var lagt við því að koma með uppþvottabursta á leik Íslands og Tyrklands í gærkvöld. Fram kom í fréttum RÚV í gærkvöld að lagt hefði verið hald á nokkra uppþvottabursta sem bæði stuðningsmenn Tyrklands og Íslands höfðu ætlað að smygla inn.

Tengdar fréttir

Innlent

Stuðningsmenn beggja liða með bursta

Fótbolti

Burstabann á Laugardalsvelli í kvöld

Innlent

Þvottaburstamálið dæmi um móðgunarmenningu

Fjölmiðlar

Stóra uppþvottaburstamálið í erlendum miðlum