Tveir ofbeldismenn eru nafngreindir í skýrslu Rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar. Þau eru séra Ágúst George, skólastjóri Landakotsskóla 1961 til 1998, og Margrét Müller, sem kenndi við skólann í rúm 40 ár - til ársins 2003.
George og Margrét brutu gegn börnunum hvort í sínu lagi eða saman, niðurlægðu þau, nauðguðu og misnotuðu á margvíslegan hátt. Stundum níddust þau á mörgum börnum samtímis. Flestir þeirra sem greindu frá ofbeldi, sögðu að það hefði staðið yfir í langan tíma - tvö til sjö ár, jafnvel mest alla skólagöngu viðkomandi. Þá koma fram frásagnir af líkamlegu ofbeldi - barsmíðum. Og grófu, viðvarandi andlegu ofbeldi.
Fjölmargir nemendur sögðu að Margrét hafi mismunað nemendum, haldið upp á suma en niðurlægt aðra kerfisbundið. Sagt er frá því að átta ára börn hafi verið látin dansa uppi á borðum í nærfötum; að börnum hafi verið refsað fyrir að pissa undir í sumarbúðum. Sex ára barn hafi verið látið borða graut eftir að hafa kastað upp á diskinn. Fyrrum nemendur greindu nefndarmönnum frá mikilli streitu, kvíða, höfuðverk, jafnvel uppköstum og magabólfum, vegna ofbeldisins.
Um Margréti sögðu nemendur fyrrverandi að hún hafi verið „klikkuð“, „sálarmorðingi“, „illmenni“, „bölvuð skepna“, „hreinræktaður sadisti“. George var sagður „grimmur“ og „ofsafenginn“.