Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Beittu nauðgunum og brenndu fólk lifandi

18.09.2018 - 21:30
Erlent · Asía · Mjanmar · Róhingjar
epa07029070 (FILE) - A Myanmar border guard police stands guard near a fence of Rohingyas refugees and makeshift houses at the 'no man's land' zone between the Bangladesh-Myanmar border in Maungdaw district, Rakhine State, western Myanmar,
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Skýrsla rannsóknarnefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem varpar ljósi á þjóðarmorð mjanmarska hersins, segir frá hræðilegum pyntingum sem herinn hefur beitt Róhingja. Konur máttu þola hópnauðganir og barsmíðar. Dæmi eru um að þær hafi verið bundnar á hárinu við tré, brenndar með sígarettum eða sjóðandi heitu vaxi.

Skýrslan var birt í heild sinni í dag. Rannsókn nefndarinnar stóð yfir í fimmtán mánuði. Rannsakendum var meinaður aðgangur að Mjanmar en þeir tóku viðtöl við 875 vitni, sem hafa flúið landið. 

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að mjanmarski herinn hefði beitt nauðgunum og annars konar kynferðislegu ofbeldi sem pyntingum, oftast gegn konum og stúlkum en einnig gegn körlum. Ein kona lýsir því hvernig hún var bundin við tré og henni nauðgað ítrekað. Hún var þá komin átta mánuði á leið. Hermennirnir spörkuðu í maga hennar og skildu hana eftir, bundna við tréð. Barnið fæddist andvana. Ótalmargar álíka sögur er að finna í skýrslu nefndarinnar, sem telur 444 blaðsíður.

Herinn brenndi hús Róhingja og börn sem reyndu að flýja voru neydd til að fara aftur inn í brennandi húsin. Heimili um 37 þúsund Róhingja voru eyðilögð í árásum hersins og minnst tíu þúsund létust. Hundruð þúsunda flýðu yfir til nágrannaríkisins Bangladess. 

Marzuki Darusman, formaður rannsóknarnefndarinnar, segir að þau brot sem mjanmarski herinn hafi beitt falli undir alvarleg mannréttindabrot og alþjóðlega glæpi. Sendiherra Mjanmars sagði skýrslu nefndarinnar draga upp einhliða mynd af atburðum, en að stjórnvöld líði ekki mannréttindabrot. 

Nefndin hefur kallað eftir því að alþjóðasamfélagið bregðist við og að sex herforingjar í mjanmarska hernum verði sóttir til saka fyrir þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni. „Morð á almennum borgurum, þar á meðal á smábörnum, getur ekki flokkast sem barátta við hryðjuverk. Herinn má ekki fyrirskipa nauðganir á konum og stúlkum, eða að brenna fólk lifandi,“ sagði Marzuki Darusman þegar skýrslan var kynnt á fundi Sameinuðu þjóðanna í dag. „Þetta var vel skipulögð og fyrirfram ákveðin árás á ákveðinn þjóðfélagshóp.“