Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Beinskeytt yfirlýsing AGS um FME

11.04.2017 - 16:15
Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir / Þórgunnur Oddsdóttir
Nú þegar Ísland er að opna fjármálakerfi sitt aftur að baki hafta síðan í nóvember 2008 er höfuðviðfangsefnið að styrkja eftirlit með fjármálageiranum meðal annars af því Fjármálaeftirlitið er of berskjaldað fyrir pólitískum þrýstingi. Þetta segir í óvenju beinskeyttri yfirlýsingu sendinefndar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eftir tveggja vikna Íslandsdvöl nefndarinnar þar sem hún kynnti sér aðstæður í íslenskum efnahagsmálum.

 

AGS yfirlýsingar sem oft er talað um með tveimur hrútshornum

Yfirlýsingar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eru ávalt ræddar við stjórnvöld í viðkomandi landi og oft tekist á með tveimur hrútshornum um orðalag og áherslur. Stjórnvöld eru ekki hrifin af gagnrýni og sjóðurinn vill koma skoðunum sínum sem skýrast á framfæri. Sjóðsmenn eru þjálfaðir í varfærnu orðalagi og því vekur alltaf athygli þegar í yfirlýsingunum leynist tæpitungulaus boðskapur. Eins og núna í nýjustu yfirlýsingunni um Ísland.

Nýjar aðstæður að baki hafta krefjast nýrrar nálgunar

Efnið sem er fjallað um á svo óvenju skýran hátt er fjármálaeftirlit á Íslandi þar sem AGS finnur ýmislegt aðfinnsluvert. Eins og kemur fram í fyrstu málsgrein yfirlýsingarinnar er Ísland ,,að opna fjármálakerfi landsins á ný.” Síðan segir: “Mikilvægt er að taka slík skref af festu og varfærni. Höfuðviðfangsefnið verður að vera styrking á eftirliti með fjármálageiranum.”

Átta ár frá hruni og fjármálaeftirlitið enn ekki nógu gott

Sú skoðun skín því í gegn að nú rúmum átta árum eftir bankahrun, sem í alþjóðlegu samhengi á sér enga hliðstæðu, er fjármálaeftirlit á Íslandi enn of veikburða að mati sjóðsins og því ,,höfuðviðfangsefni” að styrkja það. Í samtali við Spegilinn sagði Ashok Bahtia formaður sendinefndar AGS á Íslandi að það sé kannski fullmikið að segja að íslenskt fjármálaeftirlit sé áhyggjuefni en tvímælalaust efni til að hafa augun á.

FME of berskjaldað fyrir pólitískum þrýstingi

Það er sjálf stofnunin, Fjármálaeftirlitið, sem er of veikburða að mati AGS. Sjóðurinn bendir enn fremur á að FME sé ekki ,,nógu einangrað frá stjórnmálum,” eins og segir í yfirlýsingunni. Þarna er óvenju fast að orði kveðið miðað við skrif AGS almennt.

Hér er sjóðurinn að benda á að FME sé of berskjaldað fyrir pólitískum þrýstingi. Þrýstingi sem stjórnvöld geta til dæmis beitt við skipan stjórnarformanns og eins af því FME þarf árlega að sækja um skerf af fjárlögunum.

Tillögur til breytinga

Sjóðurinn gerir ýmsar tillögur til breytinga, líka af því í viðbót við pólitískan þrýsting geti núverandi skipan skapað samhæfingarvanda. Ein lausnin, en ekki endilega sú einasta, sé að sameina alla umsjón bæði með öryggi bankanna og styrkleika þeirra undir stjórn Seðlabankans og síðan hafi önnur stofnun yfirumsjón með viðskiptaháttum og regluverki annarra fjármálafyrirtækja. Þessi umræða er bergmál af alþjóðlegri umræðu, einmitt í ljósi fjármálakreppunnar. Í Bretlandi var fjármálaeftirlitið skilið frá Englandsbanka um aldamótin en hefur nú aftur verið sett þar inn og umsjón með viðskiptaháttum bankanna felld undir aðra stofnun.

Hvaða leið sem verður valin þá þarf lagabreytingar og já, sú vinna ætti að njóta forgangs á Alþingi samkvæmt AGS. Ashok Bahtia hnykkti á því við Spegilinn að ekki væri verið að gagnrýna einstaklinga heldur að það þyrfti að endurskoða stofnanarammann svo eftirlitið verði skilvirkara.

Alþingi þarf að setja breytingar á FME í forgang

Ef alþingismenn og almenningur telja að fjármálaeftirliti sé vel háttað á Íslandi þá eru skilaboði AGS að nei, svo sé öldungis ekki. Eins og segir í upphafsorðum yfirlýsingarinnar kom þetta þannig séð ekki að sök meðan Ísland var í skjóli hafta. Nú þegar þau eru að hverfa og Ísland aftur á berangri hins alþjóðlega fjármálakerfis þá gegnir öðru máli. Nýir tímar krefjast sterks fjármálaeftirlits, bendir AGS á, ekki síst því ríkið mun væntanlega á næstu árum selja hlut sinn í stóru bönkunum þremur.

Nýir kaupendur í Arion ekki þeir heppilegustu

Kaup fjögurra erlendra fjármálafyrirtækja í Arion nýlega hafa einmitt dregið athyglina að FME. Í yfirlýsingu sjóðsins segir almennt um komandi sölu ríkisins að með fjármálastöðugleika og sanngirni í huga þurfi mat á eigendum að vera ítarlegt, ekkert megi draga undan og kaupendur að njóta jafnræðis. Frekar en að einblína á skjóta sölu fyrir sem hæst verð sé skynsamlegra að taka nægan tíma og finna þá heppilegustu eigendurna. Að mati AGS væru slíkir eigendur reyndir að íhaldssemi og tilbúnir að binda sig á Íslandi til langs tíma.

Kaupin í Arion prófraun á FME

Út frá sjónarhóli AGS má því lesa milli línanna að erlendu fjármálafyrirtækin sem keyptu hlut í Arion eru ekki bestu eigendur að mati sjóðsins, ekki íhaldssamir eigendur sem búast má við að séu tilbúnir til langtíma hollustu við Ísland. Og kaupin eru að mati AGS, prófraun á Fjármálaeftirlitið.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir