Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Beinir spjótum sínum að Ingu Sæland

12.01.2019 - 15:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Karl Gauti Hjaltason, alþingismaður utan flokka, sakar Ingu Sæland, formann Flokk fólksins, um óvandaða meðferð fjármuna flokksins og opinberu fé sé varið til launagreiðslna í þágu nánustu fjölskyldumeðlima Ingu. Inga segir flokkinn hafa ekkert að fela.

Ásakanir Karls Gauta birtust í innsendri grein hans í Morgunblaðinu í morgun. Þar segir hann að einhverjir hefðu staldrað við ummæli hans á Klaustur barnum í lok nóvember um hæfileika Ingu Sæland til að leiða stjórnmálaflokk. Í grein sinni segist Karl Gauti hafa látið gagnrýni sína ítrekað í ljós við Ingu Sæland sjálfa. Hann telji ekki forsvaranlegt að formaður stjórnmálaflokks sitji yfir fjárreiðum hans með því að vera jafnframt prókúruhafi og gjaldkeri flokksins. Þá geti hann ekki sætt sig við það að opinberu fé sé varið til launagreiðslna í þágu nánustu fjölskyldumeðlima stjórnmálaleiðtoga, og á hann þar við son Ingu sem vinnur á skrifstofu flokksins. 

Líkt og flestir vita hittust sex stjórnmálamenn á Klaustur bar í lok nóvember. Fjögur úr Miðflokknum og tveir úr Flokki fólksins, Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson. Heyra má Karl Gauta segja að Ólafur sé líklega sammála sér um að Inga Sæland geti ekki stjórnað flokknum. „Hún getur þetta ekki. Hún getur talað um þetta, hún getur grenjað um þetta, en hún getur ekki stjórnað.“ Eftir að upptökurnar af samtölum sexmenninganna litu dagsins ljós voru Karl Gauti og Ólafur reknir úr Flokki fólksins. 

Vildi svara gagnrýninni með greininni

Karl Gauti segir í samtali við fréttastofu að með grein sinni í Morgunblaðinu sé hann að svara gagnrýni sem hann hafi hlotið eftir Klaustursmálið. „Menn hafa verið hissa á því af hverju ég talaði svona og ég er að segja að þessi gagnrýni er ekki ný af nálinni frá mér. Ég hef innan flokksins margoft gagnrýnt þessa hluti. Þetta mæltist auðvitað ekki vel fyrir. Ég var talinn vera að setja mig upp á móti formanninum.“

Karl Gauti vildi ekki tjá sig nánar um hvaða fjölskyldumeðlim hann talar um í greininni eða hvort ráðningin sjálf hafi verið ólögmæt. „Það liggur í hlutarins eðli að fólk sem stjórnar stjórnmálaflokkum og þiggur tugi ef ekki hundruð milljóna frá ríkissjóði til að reka slíka flokka, á að vanda sig og á að fara eftir venjum og lögum sem um þessa fjármuni gilda. Með greininni er ég að útskýra að ég var ekki að koma aftan að formanninum, ég hef margoft sagt þetta við hana sjálfa.“

Telurðu að hún hafi ekki farið eftir lögum?
„Ég er ekkert að gefa það í skyn en ég meina lög um bókhald og lög um fjármál stjórnmálaflokka hafa ákvæði um hvernig beri að fara með fé sem er deilt til stjórnmálaflokka varðandi innri endurskoðun og verkaskiptingu innan flokkanna. Það á ekki að vera sami maðurinn sem á að vera með allar hendur á þessu.“ 
En með þessum orðum þá hlýturðu að vera að gefa það í skyn að hún hafi ekki farið eftir lögum?
„Já ég tel þetta ekki forsvaranlegt.“ segir Karl Gauti. Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki komið opinberlega fram með þessar upplýsingar segir hann alltaf vera hægt að deila hvenær menn eigi að stíga fram með svona hluti en núna hafi hann viljað svara gagnrýni eftir Klausturmálið. 

Karl Gauti sár og hefnigjarn

Inga Sæland segist ekki gefa mikið fyrir þessa grein Karls Gauta og segir hana dæma höfundinn sjálfan og hans hugsjón.„Pólitískir andstæðingar munu alltaf halda áfram að reyna að grafa undan okkur. Það er erfitt fyrir tveggja ára stjórnmálaflokk að standa af sér alla þá illgirni og holskeflur af tortryggni sem sendar eru út í samfélagið, en sérstaklega af sárum og hefnigjörnum einstakling sem hefur þurft að axla ábyrgð á sínum svikum.“

Hún segir Karl Gauti hefði getað kynnt sér það, fyrir greinarskrif sín, að hún væri ekki gjaldkeri flokksins. „Það er Jónína Björk Óskarsdóttir er gjaldkeri flokksins. Það er langt síðan sem við settum á fjárhagsráð, þar eru þrír aðilar sem sitja í því ráði. Frá upphafi hefur það verið þannig að öll stjórn getur beðið um aðgang að heimabanka flokksins hvenær sem er. Flokkurinn hefur löggiltan endurskoðanda sem tekur við bókhaldinu okkar og gengur frá því til ríkisendurskoðunar. Á landsþinginu okkar í haust voru ársreikningarnir kynntir og þar voru engar athugasemdir gerðar og allt var uppi á borðum. Hér er ekkert að fela, ekki ein einasta króna.“ 

Inga segir það af og frá að hún hafi tengst ráðningu sonar hennar. „Hann kemur inn snemma fyrravor til að hjálpa flokknum sem sjálfboðaliði. Bæði með tölvuþekkingu og okkur vantaði sárlega líka einhvern sem hægt er að treysta. Kjördæmaráð Reykjavíkur óskar eftir að vera á stjórnarfundi og krefst þess að við ráðum þennan mann af því hann sé að gera svo góða hluti. Í þessu tilviki þá var mér ýtt til hliðar, stjórnin ræddi þetta með kjördæmaráðinu og þessi ákvörðun var tekin. Ég kom ekkert nálægt ráðningu hans.“

„Að ala á þeirra tortryggni að segja að ég sé búin að raða fjölskyldunni minni niður í flokkinn er bara illkvittnislegt. Þetta virkar bara á mig sem særindi og hefndargirni.“ segir Inga.

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV