Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bein styrkja tilgátu um bú Fjalla-Eyvindar

23.09.2015 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Minjastofnun Íslands - Eitt beinanna úr Hvannalindum
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Kolefnisgreining á beinum sem fundust í Hvannalindum rennir stoðum undir þá kenningu að dularfullur mannabústaður þar hafi verið skjól Fjalla-Eyvindar og Höllu eða annarra útilegumanna sem höfðu sagt sig úr lögum við samfélagið á 18. öld.

Minjastofnun Íslands tók í sumar þrjú bein úr gömlum rústum af vistarverum fólks sem hafðist við í Hvannalindum. Beinin voru send til Skotlands í kolefnagreiningu en þannig er hægt að segja til um aldur þeirra. Rúnar Leifsson, Minjavörður á Austurlandi, segir að samkvæmt greiningunni séu beinin líklegast frá 18. öld eða frá um 1750 en skekkjumörkin séu 33 ár. Rúnar segir það þetta sé í fyrsta sinn sem staðfest sé hversu gömul hýbýlin séu.

Hvannalindir eru gróðurvin í um 640 metra hæð undir Lindahrauni í skjóli af Lindafjöllum og Krepputunguhraunum að vestan og Kreppuhrygg að austan. Í jaðri Lindahrauns eru rústir sem Þorgils gjallandi fann ásamt þremur öðrum Þingeyingum árið 1880. Kristján Eldjárn rannsakaði rústirnar sumarið 1941 og taldi að húsin hefðu verið einangruð með gærum. Rústirnar eru nú friðlýstar forminjar.

Enginn búið þarna ótilneyddur

Því hefur verið haldið fram að Fjalla-Eyvindur og Halla hafi hafst við í Hvannalindum um 1767 eða um 1780. Þar fundust meðal annars rústir bæjar, útihúss, mosavaxinn eldiviðarköstur, steinpottur og ausa úr hrossherðablaði.  Rúnar bendir á að Hvannalindir séu svo afskekktar og aðstæður þar svo erfiðar að enginn hefði lagt á sig búsetu þar nema af ríkri ástæðu.

„Þessi gróðurvin er í hálendiseyðimörk sem nær tugi kílómetra í allar áttir. Fólkið hefur þurft að bera rollur með sér yfir jökulár. Það getur enginn hafa farið þarna uppeftir nema vilja segja sig úr lögum við samfélagið,“ segir Rúnar og bætir við að bærinn sé þar að auki falinn í hrauninu. „Þessar rústir eru ótrúlega heillegar og ótrúlegt að fólk hafi geta hafst þarna við. Miðað við það samhengi, tímabilið, staðsetninguna og þessi mannvirki er það skemmtileg tilgáta að þetta hafi verið þau. Eyvindur og Halla eru stórar persónur í vitund þjóðarinnar en við getum aldrei vitað hver byggði þetta í raun og veru,“ segir Rúnar. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV