Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bein aðkoma erlends banka hefði jákvæð áhrif

Mynd með færslu
 Mynd:
Lagt er til að Íslandsbanki verði seldur erlendum banka að hluta eða að öllu leyti í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kynnt er í dag. Samhliða sölu Íslandsbanka telja höfundar hvítbókarinnar ástæðu til að hefja undirbúning að skráningu og sölu á hluta af eignarhlut ríkisins í Landsbankanum.

Hvítbókin var unnin fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið en útgáfu hennar hefur ítrekað verið frestað. Upphaflega stóð til að skýrsla starfshópsins yrði kynnt 15. maí á þessu ári. Markmiðið var að draga fram ólík sjónarhorn, sýna heildarmynd íslensks fjármálakerfis, horfa til framtíðar og leggja fram tillögur að umbótum á fjármálakerfinu.

Lárus L. Blöndal var formaður starfshópsins en auk hans sátu Guðjón Rúnarsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Kristrún Tinna Gunnarsdóttir og Sylvía K. Ólafsdóttir í starfshópnum.

Aukinn stöðugleiki og minni kerfisáhætta

Starfshópurinn telur að bein aðkoma erlends banka að einum íslensku bankanna sé líkleg til að hafa jákvæð áhrif á samkeppnisumhverfi bankanna til framtíðar. Eignarhald erlends banka geti aukið stöðugleika og minnkað kerfisáættu með fjölbreyttara eignarhaldi í kerfinu. Um leið minnki hætta á krosseignartengslum.

Í hvítbókinni er einnig lagt til að lögfest verði svokölluð varnarlína um umfang fjárfestingabankastarfsemi. Hún felur í sér að Fjármálaeftirlitinu verði falið að meta eiginfjárþörf vegna beinnar og óbeinnar stöðutöku kerfislega mikilvægra banka. Nái eiginfjárþörfin 10-15 prósentum hjá einhverjum bankanna verði viðkomandi banki að velja um tvo kosti: Annaðhvort verði dregið úr umræddri starfsemi eða um hana stofnað sérstakt félag.

Þá er lagt til að sértækir skattar og opinber gjöld á fjármálafyrirtæki verði lækkuð. Starfshópurinn skiptir tillögunni í þrennt; að lækkun sértækra skatta verði hraðari en nú er ráðgert, að sértækir skattar verði úfærðir til að lágmarka skaðleg áhrif á samkeppni og að heildstæð endurskoðun verði gerð á skattheimtu og opinberum gjöldum.

Mynd með færslu
 Mynd:
Hvítbókin var kynnt síðdegis í dag.

Rekstrarhagræðing myndi skila sér til neytenda

Skoða þarf framtíðarfyrirkomulag aðkomu lífeyrissjóða að húsnæðislánum, samkvæmt hvítbókinni sem kynnt var í dag. Starfshópurinn segir að lífeyrissjóðir hafi aukið bein íbúðalán til heimila undanfarin misseri og að sú þróun hafi haft mjög jákvæð áhrif á vaxtakjör íbúðalána. „Einn helsti galli þessa fyrirkomulags er að það veldur mismunun á grundvelli stéttarfélags, búsetu eða menntunar þar sem þau eru veitt til sjóðfélaga og dregur auk þess úr samkeppni milli lífeyrissjóðanna,“ segir í kynningu starfshópsins.

Þess vegna er lagt til að skoðað verði hvort gera eigi kröfu til lífeyrissjóðanna um að bein íbúðalán verði opin öllum sem uppfylli lánshæfismat, óháð því hvort viðkomandi er sjóðfélagi eða ekki.

Hagræðing í bankarekstri er eitt meginstefið í hvítbókinni. Með aukinni hagræðingu sé hægt að tryggja neytendum betri kjör í formi lægri vaxta. Meðal þeirra hagræðingarleiða sem starfshópurinn leggur til er að grunnkerfi bankakerfisins verði rekið sameiginlega af íslensku bönkunum. Það vægi upp á móti óhagkvæmni sem smæð hagkerfisins á Íslandi valdi. Mikilvægt sé að bankarnir geti unnið saman að sameiginlegum innviðum, svo lengi sem það skerði ekki samkeppni þar sem henni verður við komið.

Þess vegna er lagt til að fellt verði úr lögum að Samkeppniseftirlitið hafi það hlutverk að veita undanþágu fyrir samstarfi, að fram fari mat á því hvaða kerfislega mikilvægu innviðir eigi að standa utan samkeppnisumhverfis og að reynt verði að tryggja Íslandi aðgang að innviðasamstarfi þvert á landamæri.