Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Beið í níu daga eftir ferðatösku

19.07.2017 - 13:27
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Ferðataska var níu daga að berast með flugfélaginu SAS frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur. Töskuna var hvergi hægt að finna á skrá flugfélagsins en barst loksins með ómerktum sendiferðabíl heim til farþega. Þetta segir í bréfi til fréttastofu. Fyrirtækið ACE Handling þjónustar SAS á Keflavíkurflugvelli. Nokkuð hefur verið kvartað til Isavia vegna þess að farangur, sem er á könnu ACE Handling, sé lengi að berast. Fyrirtækið hefur glímt við óeðlilega mikið álag undanfarið, segir framkvæmdastjóri.

„Þeir hafa verið í vandræðum með mönnun og við höfum fengið nokkuð af kvörtunum út af þeim og sérstaklega vegna afhendingar farangurs við komu,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. ACE Handling er nýjasta fyrirtækið af þremur sem þjónustar flugfélög á Keflavíkurflugvelli en auk þess að sjá um farangur fyrir SAS annast það flugfélögin Finnair og Air Canada. Fyrirtækið Airport Associates þjónustar Wow air og IGS, dótturfyrirtæki Icelandair Group, þjónustar Icelandair. 

Nokkur hundrað töskur um allt land

„Við erum búin að vera í starfi síðan 2011 og hefur gengið vel í mörg ár. Nýlega hafa hins vegar komið nokkur flug þar sem vantaði gífurlegt magn af töskum. Það bilaði færibandakerfi í Ósló og töskur voru skildar eftir og á sama tíma gerist vantar nokkrar töskur í SAS-flugi frá Kaupmannahöfn,“ segir Hilmar Hilmarsson, framkvæmdastjóri ACE Handling. „Það er ekki óeðlilegt að nokkrum töskum sé gleymt í flugi en að vera allt í einu með nokkur hundrað töskur sem þarf að skila til viðskiptavina um allt land hefur verið rosaleg áskorun fyrir okkur. Okkar starfsfólk hefur gert sitt besta.“ Tekið hafi fyrirtækið um þrjár vikur að vinda ofan af ástandinu. „Í rauninni er þetta ekki okkur að kenna en allir kenna okkur um.“

„Það er mikil aukning á umferð og samkeppni um starfsfólk en ACE Handling hefur ekki gengið jafn vel og öðrum að fá starfsfólk, virðist vera,“ segir Guðni hjá Isavia. Sem rekstraraðilar flugvallarins geti Isavia ekki sett kröfur á þá sem þjónusta flugfélögin og flugfélögin sjálf beri endanlega ábyrgð á því að farangur skili sér til farþega. „En að sjálfsögðu viljum við að þjónusta við farþega sé sem allra best og reynum að knýja á um úrbætur í samstarfi við flugþjónustuaðilann hverju sinni.“

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV