
Ekkert eftirlit er með sölu á rafrettum og áfyllingum á þær í dag, en reglugerð er í undirbúningi í velferðarráðuneytinu þar sem taka á á þessum málum og mun það einfalda eftirlitið mjög, segir Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar.
„Já, ég held að það sé alveg tvímælalaust að það muni gera það. Þetta er innleiðing á evrópskri reglugerð og það er velferðarráðuneytið sem sér um að innleiða þessa reglugerð og smíða hana. Með þessu verður þessu skipt upp í tvennt eftir styrkleikum og lægri styrkleikinn mun þá heyra undir tóbaksvarnarlögin og þar er mjög skýr rammi um hvað má og hvað má ekki. Þá er þetta komið inn í ákveðinn ramma sem er bara mjög gott.“
Áfyllingar í hærri styrkleikaflokki munu heyra undir lyfjalög, eins og rafrettur og áfyllingar almennt gera í dag. Því þarf lyfsöluleyfi til að selja þær og lyfin þurfa að vera skráð, sem rafrettur eru ekki í dag. Rafrettur og áfyllingar eru seldar í sjoppum í dag sem er þar af leiðandi ólöglegt.
„Já, já, það er ólöglegt.“
„En það er ekkert gert í því?“
„Við höfum náttúrulega verið að bregðast við þessu í gegnum tíðina og skrifað bréf til Neytendastofu. Þetta er náttúrulega ekki selt hjá þeim aðilum sem við erum eftirlitsaðilar með, við erum eftirlitsaðilar með apótekum. Þetta er ólögleg lyfjasala svo að við höfum skrifað þessum aðilum bréf og við höfum líka vísað málum til lögreglu.“
Rúna segir þá sem selja rafrettur og áfyllingar vita vel hver staðan er. Þeir kannist við að selja rafrettur en ekki rafrettur sem innihalda nikótín. Hún segir ástandið hér ekki vera séríslenskt, alstaðar í löndunum í kring hafi vantað lagarammann þegar rafretturnar komu á markaðinn því að löggjöfin sé oft á eftir markaðnum og því verði það til bóta þegar reglugerðin verður innleidd.