Beðið eftir Rattle

Mynd: Wikimedia / Wikimedia

Beðið eftir Rattle

09.09.2017 - 10:14

Höfundar

Breski hljómsveitarstjórinn Sir Simon Rattle snýr nú aftur til Bretlands til að stjórna LSO hljómsveitinni næstu árin. Áhuginn á endurkomu hans til London er mikill en ummæli Rattle, um að hann hefði ekki endilega tekið starfinu ef hann hefði vitað af Brexit, hafa vakið athygli.

Sonurinn snýr heim

Það stendur mikið til í bresku tónlistarlífi í næstu viku og reyndar út mánuðinn. Stemningin er að byggjast upp fyrir einhverja mestu endurkomu sem sést hefur í tónlistarlífinu í heimsborginni London í fjöldamörg ár. Hljómsveitarstjórinn Simon Rattle, ein stærsta stjarna sígildrar tónlistar á undanförnum árum, er að snúa aftur til Bretlands eftir að hafa verið aðalhljómsveitarstjóri Berlínar fílharmóníunnar frá árinu 2002. Hann mun taka við stöðu aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Lundúna (LSO) og leiða starf hennar næstu ár.

10 daga hátíð

Spennan er mikil og hátíðarhöldin verða rífleg. Breska tónlistartímaritið BBC Music Magazine tók fyrir allar hliðar málsins í nýjasta heftinu og ljóst er að áhrif þessarar heimkomu gætu orðið nokkuð mikil í bresku tónlistarlífi. Dagana 14. til 24. september verður boðið upp á eitt stykki tónlistarhátíð undir heitinu This is Rattle, Þetta er Rattle.  Fyrstu tónleikar hátíðarinnar verða eins konar konfekt kassi breskrar tónlistar. Skoski tónsmiðurinn Helen Grime hefur sett saman lúðrakall til að fagna komu Rattle og þar verða líka verk eftir Thomas Adés, Harrison Birtwistle og Oliver Knussen og síðan auðvitað það enskasta af öllu ensku, Enigma tilbrigðin eftir Edward Elgar sem Rattle hefur einstakt lag á.

Síðan koma tónleikarnir í röðum, af öllum stærðum og gerðum, sett verður upp sýning um hljómsveitarstjórann í Barbican listamiðstöðinni, þar sem LSO-sveitin er með bækistöð og svo framvegis og svo framvegis. Þeir sem ekki hafa náð sér í miða á opnunartónleikana geta safnast saman í höggmyndagarði Barbican og hlustað með heyrnartólum í beinni, allir saman, og auðvitað verður tónleikunum miðlað í BBC útvarpi nr. 3 og af Mezzo sjónvarpsstöðinni.

Alls kyns kynningar- og upplifunarviðburðir verða líka í boði, en hljómsveitarstjórinn er mikill kappsmaður í þeim efnum. Hann vill opna augu æskunnar og almennings alls fyrir galdri sígildrar tónlistar.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Salur LSO er í Barbican Centre sem er gott dæmi um brútalisma í arkitektúr

Nýr tónleikasalur í býgerð

En Simon Rattle er eins og flutningaskip á fullri siglingu og líklegt er að hreyfing muni komast á ýmislegt í bresku tónlistarlífi í kjölsoginu sem honum fylgir. Upp hafa risið vangaveltur um stóri salurinn í Barbican listamiðstöðinni sé barn síns tíma og henti ekki lengur fyrir nútíma sinfóníuhljómsveit. Sjálfur hefur Rattle látið hafa eftir sér að um fimmtungur þeirra verkefna sem hann vilji vinna að með sveitinni komist einfaldlega ekki fyrir í salnum.

Og nú er búið að velja á stuttan lista arkitekta sem geta lagt fram teikningar að nýjum sal fyrir hljómsveitina. Þar er að finna helstu stjörnuarkitektastofur samtímans: Frank Ghery, Renzo Piano, Norman Foster og hina norsku Snøhetta stofu. Staðsetningin fyrir nýja salin er klár, til stendur að færa Museum of London, sem tilheyrir Barbican miðstöðunni í dag, eða er öllu heldur í útjaðri hennar.  

Auðvitað snýst þetta um samkeppni milli borga. Tónlistarsalirnir tveir sem einkum þjóna sinfónískri tónlist í London, Royal Festival Hall í South Bank centre sunnan við Thames ána, og Barbican salurinn sem leynist í brútalískum byggingum listamiðstöðvarinnar í fjármálahverfinu norðan við ána, eru gamaldags og lummulegir ef miðað er við það nýjasta og fínasta: Hörpu í Reykjavík og Fílharmoníuna nýju í París, svo ekki sé minnst á hina glænýju Elbphilharmonie í Hamborg.

Verkefnið er komið af stað en það haltrar þó samt eftir að ríkistjórn Theresu May ákvað að halda aðeins fastar í veskið en til stóð. Pólitískan stuðning vantar í augnablikinu að minnsta kosti, enda staðan í breskum stjórnmálum nokkuð óviss þegar enginn veit hver þróunin verður í Brexit-lönguvitleysunni sem er auðvitað bara rétt að byrja.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons  - Wikimedia Commons
Simon Rattle telur salinn í Barbican centre allt of lítinn.

Góð stemning kringum aðalmanninn

Simon Rattle, Sir Simon Rattle auðvitað, er fæddur árið 1955. Hann náði mikilli athygli í tónlistarheiminum þegar hann stýrði Sinfóníuhljómsveit Birmingham á árunum 1980 til 1998 og þar fékk sú hljómsveit nýjan frábæran tónleikasal árið 1991.

Í Berlín gerði hann frábæra hluti með fílharmóníunni, leiddi til dæmis þróun á netsjónvarpsþjónustu sveitarinnar sem er hin flottasta í heimi. En Rattle þekkir vel til sveitarinnar sem hann tekur nú formlega við í London, LSO. Hann stjórnaði henni fyrst árið 1977, þá aðeins 22 ára og hefur snúið aftur og aftur til að stjórna henni í gegnum tíðina, til dæmis á opnunarhátíð Olympíuleikanna í London árið 2012. Eins og fleiri listamenn sem fram komu þar, er Sir Simon Rattle breskt þjóðardjásn.

Fáir hljómsveitarstjórar eru jafn líflegir á sviði og Rattle. Það er greinilegt að Rattle er ástríðumaður en svo er líka greinilegt að hann treystir sínum sveitum fullkomlega. Þetta sá maður til dæmis þegar hann kom og stjórnaði Berlínar fílharmoníunni í Hörpu skömmu eftir opnun hússins. Það voru ógleymanlegir tónleikar og smitandi framkoma Rattles sýndi fullkomlega af hverju spennan í tónlistarlífi London , þeirri hlið þess sem snýr að sígildri tónlist, er svona mikil þessa dagana.

Tónlistin í innslaginu er: Júpiter kaflinn úr Plánetum Holst, aðalstefið úr Enigmatilbrigðum Elgars og brot úr Daphnis og Klóa svítu eftir Ravel. Það síðasta af upptökum Berlínar fílharmóníunnar í Hörpu.