Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Beðið álits um hvort breyta megi gildistíma

19.08.2016 - 19:47
Kristján Möller fulltrúi Samfylkingarinnar í atvinnuveganefnd segir drög að nefndaráliti meirihlutans um búvörulögin ekki ganga nógu langt. Framhaldið ráðist af áliti sérfræðinga um hvort Alþingi geti gert breytingar á gildistíma samningsins. 

Atvinnuveganefnd hefur undanfarna daga rætt frumvarp um búvörulög sem ætlað er að ná sátt um hina umdeildu búvörusamninga. Í drögum að nefndaráliti sem voru kynnt í gær er gert ráð fyrir að fyrstu þrjú ár samningsins verði staðfest og að þeim loknum komi virk endurskoðunarákvæði. Þá eigi að leita leiða til breytingar á fyrirkomulagi mjólkurframleiðslu þannig að samkeppnislög gildi um hana og að um 250 ostar verði tollfrjálsir.

„Margt af þessu hefur gert það að verkum að málið er aðeins að skána en ekki nægjanlega mikið, og ég á eftir að sjá hvað meirihlutinn ætlar að gera hvað aðra þætti varðar, áður en ég úttala mig um það hvort mér lítist vel á það eða ekki,“ segir Kristján Möller.

Þar á hann við tímalengd samningsins, að mjólkuriðnaðurinn starfi innan samkeppnislaga, fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta og að ostar sem ekki eru framleiddir hér á landi séu með fullan toll. Tekist verði á um þetta í næstu viku.

Kristján segir að sérfræðingur í samningarétti komi að hans beiðni á fund nefndarinnar eftir helgi til að gefa álit sitt á því hvort Alþingi geti breytt gildistímanum án samþykkis bænda. „Þetta er eitt af grundvallaratriðunum, að þessi tíu ára samningur verði gíraður niður og farið í þennan þriggja ára samning eða jafnvel styttra. Ef sérfræðingurinn segir okkur að hér sé búið að gera bindandi tíu ára samning þá er tómt mál fyrir meirihlutann eða Alþingi að breyta því nema gera stórar og miklar breytingar sem myndu þá væntanlega þýða atkvæðagreiðslu hjá bændum.“

Lilja Rafney Magnúsdóttir fulltrúi Vinstri grænna í atvinnuveganefnd segist styðja þá hugmynd að hafa sterk endurskoðunarákvæði innan tíu ára samningsrammans, eins og lagt er til í drögunum sem voru kynnt í gær. 
Búist er við að nefndarálit vegna frumvarpsins liggi fyrir í næstu viku.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV