Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

BDSM-félagið fékk inngöngu í Samtökin 78

05.03.2016 - 18:19
Mynd með færslu
 Mynd: wikipedia.org
Umsókn BDSM-félagsins á Íslandi um inngöngu í Samtökin 78 var samþykkt á aðalfundi samtakanna í dag. 37 greiddu atkvæði með umsókninni en 31 var á móti.

Auður Magndís Auðardóttir, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, sagði í samtali við fréttastofuna að umsóknin hafi legið í loftinu í um hálft annað ár, en nokkur aðildarfélög séu að samtökunum. Hún segir að félagar í BDSM-félaginu hafi talið sig fá styrk af því að vera í formlegu samstarfi við önnur hinsegin félög. Þeir telji sig verða fyrir fordómum og þeir eigi samleið í baráttunni og samstaðan styrki.  Þetta sé vel þekkt fyrirkomulag í öðrum löndum, til dæmis Noregi. 

Auður Magndís segir að  þótt 31 hafi greitt atkvæði gegn inngöngu BDSM-félagsins hafi fundurinn ekki verið erfiður, fólk hafi mismunandi skoðanir og skipst hafi verið á skoðunum, en hitafundur hafi þetta ekki verið.

Hvernig samstarfi félaganna verður háttað segir hún að eigi eftir að koma í ljós, stjórnir beggja félaga muni finna út úr því með tíð og tíma.

 

 

 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV