Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Báru verður ekki gert að gefa skýrslu

12.12.2018 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Bára Halldórsdóttir hefur verið boðuð sem aðili máls til þinghalds fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, en ekki til skýrslutöku eins og sagt hefur verið frá í fjölmiðlum. Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, segir Báru hafa verið boðaða til þess að gera henni ljóst að hugsanlega verði höfðað mál gegn henni og að hún gæti þurft að grípa til varna.

Lögmaður þingmannanna fjögurra úr Miðflokknum, sem voru hljóðritaðir á Klausturbarnum, hefur ítrekað kröfu um að Persónuvernd rannsaki málið til hlítar og beiti sektarheimildum.

Þetta kemur fram í svari Helgu Þórisdóttur forstjóra Persónuverndar við fyrirspurn fréttastofu. Lögmaðurinn hafði sent slíka beiðni áður en Bára Halldórsdóttir greindi frá því að hún væri sú sem hefði tekið samtöl þingmannanna upp. Persónuvernd sendi þá lögmanninum fyrirspurn um hvort enn væri farið fram á umfjöllun stofnunarinnar um málið. Lögmaðurinn svaraði samdægurs og ítrekaði beiðnina.

Lögmaðurinn telur að þingmennirnir hafi sætt ólöglegum njósnum. Það kemur fram í beiðni um vitnaleiðslur og öflun sönnunargagna sem hann sendi Héraðsdómi Reykjavíkur.

Þinghaldið í héraðsdómi verður á mánudag.