Tekist hefur að bjarga rúmlega fjörutíu manns úr rústum eftir jarðskjálfta í austurhluta Tyrklands; en tugir manna eru enn fastir í rústunum. Minnst tuttugu og tveir eru látnir af völdum skjálftans sem var 6,8 að stærð.
Skjálftinn reið yfir rétt fyrir klukkan níu í gærkvöld að staðartíma. Miðja hans er nálægt bænum Sivrice í Elazig-héraði. Skelfing greip um sig meðal fólks sem þusti út á götur af ótta við að hús hryndu ofan á það.
Yfir tólf hundruð slösuðust í jarðskjálftanum, þar af nokkrir í nágrannabæjum, og hundruð bygginga skemmdust. Strax var farið að leita að fólki í rústunum og voru um tvö þúsund björgunarmenn sendir á vettvang. Það bar árangur, en um fjörutíu manns hefur verið bjargað á lífi úr hrundum byggingum. Meðal þeirra sem björguðust var barnshafandi kona sem hafði verið föst í braki í tólf tíma. Yfir tuttugu er þó enn saknað.
Stjórnvöld hafa dreift teppum, tjöldum og rúmum á svæðinu, til að koma þeim sem hafa ekki í nein hús að venda í öruggt skjól. Þar sem enn mælast eftirskjálftar er mælst til þess að fólk snúi ekki aftur til síns heima strax. Um tvöhundruð eftirskjálftar mældust. Fólk í Sýrlandi, Líbanon og Íran varð vart við skjálftann í gærkvöld.