Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Barneignir og umhverfismál

Mynd: EPA-EFE / KEYSTONE

Barneignir og umhverfismál

07.04.2019 - 15:14

Höfundar

Í síðustu viku talaði ég um að börn væru framtíðin. Að við ættum að hlusta á börnin og hvað þau hafa að segja. Ég tek þetta allt til baka.

Ég var að lesa rannsókn frá háskólanum í Lundi þar sem bornar voru saman áhrifamestu leiðirnar til að minnka kolefnisfótspor sitt. Áhrifunum var skipt í þrjá flokka: mikil áhrif, meðaláhrif og lítil.

Í flokknum „lítil áhrif“ var til dæmis minnst á það að skipta glóperum út fyrir sparperur. Í miðjuflokknum voru nefndir hlutir eins og að hengja þvott á snúrur í stað þess að nota þurrkara, að endurvinna og skipta olíubílnum út fyrir rafmagnsbíl. Í flokknum „mikil áhrif“ var nefnt að gerast vegan, að fækka flugferðum og stunda bíllausan lífsstíl. Það sem hins vegar trompaði allt á listanum var að eignast einu barni færra.

Það er það sem stóð. Einu barni færra. Ég væri þá barnlaus, bróðir minn ætti þrjú börn og systir mín eitt. Ef ég skoða þetta aðeins betur átta ég mig á að ég væri ekki bara barnlaus, ég væri ekki til.

Skömmin 

Orð ársins hér í Svíþjóð í fyrra var flugskömm. Þar er átt við þá skömm sem fylgir því að fljúga, sérstaklega í skemmtiferðir eða þegar annar ferðamáti er í boði. En líka bara að fljúga.

Nú er annað orð að ryðja sér rúms, en það er orðið flerbarnsskam. Sú skömm fylgir því að eiga mörg börn. Börn sem borða, prumpa, ropa, slíta fötum, æfa íþróttir, börn sem borða sérlega mikið og skila þá extra miklu koldíoxíði út í andrúmsloftið með útöndun.

Það er vandlifað í þessum heimi. Nýlega las ég aðra grein um að íþróttamennskan væri slæm fyrir umhverfið. Ég varð auðvitað guðslifandi fegin að hafa aðeins mætt þrisvar í ræktina árinu. Og þó - þrisvar sinnum of oft fyrir umhverfið. Svitnaði eiturgufum á leiðinni heim.

Mynd með færslu
 Mynd:
Það er stór fórn að sleppa því að eignast barn ef maður virkilega vill það

Til hvers erum við hér?

Hér erum við samt - en til hvers? Sartre, sá ágæti heimspekingur, sagði að fyrst værum við til - svo gætum við farið að leita að merkingu tilverunnar. Sumir halda því fram að tilgangur lífsins felist í því að fjölga sér. Ég er ekki á þeirri skoðun, en það að sleppa því að eignast börn - ef maður virkilega vill það - er ansi stór fórn , jafnvel fyrir góðan málstað.

Maður sér jú heiminn á nýjan hátt þegar maður verður foreldri. Kannski verður baráttan fyrir heiminum líka mikilvægari þegar hún fer að snúast um þitt eigið afkvæmi. Þú ferð að vilja bjarga heiminum, svo barnið þitt upplifi öryggi og eigi gott líf fram undan.

Umhverfið, lífið og breytingar 

Það er vandlifað í þessum heimi. Guðni Elísson sagði í sjónvarpsviðtali um daginn að við værum ekki að bjarga heiminum okkar, hann sagði: „Sú jörð sem við björgum núna verður ekkert í líkingu við þá jörð sem við ólumst upp í. Það verður öðruvísi veðurfar og vistkerfið verður af öðrum toga. Við getum samt ennþá bjargað henni, en við erum að tala um það á nýjum forsendum.“

Til þess að bjarga þessari jörð þurfum við að breyta lifnaðarháttum okkar. Við sem erum auðvitað skíthrædd við breytingar. Allt á að vera eins og það var, hefðbundið, staðlað, mónótónískt og einfalt.

Er breyting samt ekki einmitt frumforsenda lífsins? Ég á ekki við að það sé gott mál að heimurinn - þ.e.a.s. lífsskilyrði, ósonlagið og jörðin sjálf - séu að taka stórfelldum breytingum. Ég á við okkur sjálf. Hugmyndir okkar um heiminn og hvernig við lifum.

Valið

Í bók sinni Meningen með hela skiten fjallar Nina Åkestan um alla lífsins valmöguleika, mest í sambandi við vinnu. Hún vill meina að það sé hægt að taka eina ákvörðun og taka svo bara aðra ákvörðun síðar. Ég veit, algjör opinberun.

Samkvæmt Ninu Åkestan er í raun bara tvennt sem er óafturkræft, að drepa einhvern og koma barni í heiminn. Það er kannski ekki alveg 100% rétt, en þetta er áhugavert. Þetta með hvernig við hugsum um valmöguleikana.

Ef við afdramatíserum þetta svolítið má segja að þú þarft ekki að skipta gjörsamlega um sjálf þótt þú veljir að gerast grænmetisæta til dæmis. Þú getur nefnilega alltaf hætt því. Í rauninni er versti kosturinn að gera ekki neitt. Að sitja bara og hugsa. Tíminn er nefnilega líka óafturkræfur.

Mynd með færslu
 Mynd: Porapak Apichodilok - https://www.pexels.com
Við þurfum að bjarga ástarsambandinu við jörðina

Ástarsambandið

Gætum við hugsað okkur samband okkar við jörðina sem ástarsamband? Nú er að renna upp fyrir okkur að við erum búin að vera að beita elskhuga okkar, Jörðina, stórvægu ofbeldi. Við sem héldum að við værum bara að njóta saman, í sátt og samlyndi. Þá er annað hvort að segja þetta gott, eða reyna að bjarga sambandinu.

Tilgangurinn með þessu öllu saman

Ég held við séum öll að reyna að finna tilganginn. Ég held líka, eða það er mín upplifun, að þegar maður upplifir tilgangsleysi, eða að eitthvað vanti í lífið, þá leiti maður í veraldlega hluti og neyslu. Þá meina ég ekki áfengi eða vímugjafa, þótt það sé augljósasta dæmið, heldur líka hluti. Að kaupa hluti, eignast þá og skipta þeim út.

Þetta með að eiga hluti er áhugavert. Kannski er þetta vani. Við erum vön tilhugsuninni um að búa í eigin húsnæði, að eiga ryksugu, hversdags- eða sparistell, þótt auðvitað sé þetta ekki raunin fyrir alla þá er það einhver hugmynd. Þegar við eigum hluti höfum við tilhneigingu til að missa áhugann á þeim. Foreldrar smábarna þekkja trixið að fela bróðurpart afmælisgjafanna og tína þær svo fram eina af annarri svo barnið fái ekki leið á öllum í einu.

Að deila

Kona, sem er ein af mínum uppáhalds í þessum heimi, hringdi í mig um daginn og sagðist hafa verið að pæla mikið í kommúnum. Þetta kom mér á óvart, á svo góðan hátt, því ég hélt að hún hugsaði ekki þannig. Hún býr í einbýlishúsi, á bíl, börn, allt þetta venjulega. Það er gaman þegar það opnast inn á eitthvað óvænt hjá þeim sem maður þekkir vel. Að upplifa eitthvað óvænt í aðstæðum sem eru vani. Við erum gjörn á að skilgreina fólk. Þessi týpa - hin týpan, og ekki síst okkur sjálf. Við viljum lifa upp í einhverja hugmynd.

Mynd með færslu
 Mynd: Thuy Ha Bich - Pixabay
Vingumst við níræða sjálfið innra með okkur

Gerum eitthvað annað

Ég vona að allir séu að gera sitt besta. Ég trúi því allavega að það sé enginn vívitandi að skemma, nema sá hinn sami sé veikur. Þá þarf viðkomandi hjálp.

Við stöndum alltaf frammi fyrir vali. Við getum spurt okkur: Á ég að taka flug til Fuerteventuras til að dandalast í viku. Stundum er það kannski mikilvægt en stundum bara alls ekki. Í þeim tilfellum er allt í lagi að segja: Nei, veistu. Gerum eitthvað annað í staðinn.

Þetta með barneignir, að lausnin sé að hætta að eignast börn. Ég trúi ekki á það. Eða þú veist, ég trúi því alveg að auðvitað sé bara best að við mannfólkið segjum þetta gott. Að við hættum að búa hérna og frelsum jörðina undan þessu ofbeldissambandi - en við viljum auðvitað lifa. Einhver frumhvöt innra með okkur vill að einhverjir okkur skyldir haldi áfram að lifa okkar dag, þau skoði hlutina okkar og söguna. Við þurfum kannski bara að endurskilgreina hvað felst í því að lifa.

Með opinn lófa

Að lokum munum við öll deyja. Við deyjum frá ástkonu okkar, Jörðinni. Hvernig viljum við að hún muni eftir okkur?

Ég hugsa að þær séu óteljandi, greinarnar og bækurnar sem fjalla um eftirsjá á dánarbeðinu. Eftisjáin eftir draumunum sem manni láðist að elta, því að hafa eytt of miklum tíma í vinnunni, að hafa ekki opinberað tilfinningar eða sinnt vináttunni. Eftirsjáin eftir því að hafa ekki leyft sér að finna hamingjuna.

Að gamni mínu fletti ég upp handahófskenndri grein á veraldarvefnum sem fjallar um þetta efni. Þar voru allir þessu hlutir taldir upp. Svo hafði greinarhöfundurinn tekið saman eigin hugrenningar um gildi afa síns, hvað hann hefði lært á sinni lífsleið. Ég tók þar eftir einu sem mér fannst svo fallegt en það snerist um að ríghalda ekki í neitt. Engin veraldleg gæði sumsé. Téður afi hafði haldið öllu með opnum lófa og gefið það áfram. Að deyja þýðir að sleppa takinu á heiminum, og því fyrr sem við lærum að gera það því betra. Hlustum á framtíðina - okkur sjálf.

Fyrir viku síðan vildi ég að við hlustuðum á börnin. Nú vil ég að við vingumst við níræða sjálfið innra með okkur. Við lifum aðeins einu sinni. Ekki lifa stórt. Lifðu bara... satt.

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Sjáið þið ekki að keisarinn er allsber?

Pistlar

Söknuður eftir framtíð sem aldrei kom

Pistlar

Fastað í Borgartúni

Pistlar

Friðlýsum Holu íslenskra fræða