Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

„Barneignir hugsanlega vörn“

27.03.2011 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Rannsaka þarf hvort einstæðar konur eignist börn til að fá hærri framfærslustyrk. Þetta segir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu. Einstæðum mæðrum hefur fjölgað í kreppunni þrátt fyrir gríðarlega mikla neyð í þeim hópi. Hún segir hugsanlegt að einhverjar þeirra noti barneignir sem vörn vegna efnahagsástandsins.

Einstæðir foreldrar voru tæplega 13.000 árið 2010. Af þeim voru einstæðar mæður rúmlega 91%, eða tæplega 12.000. Að baki hverri konu standa að meðaltali tvö og hálft barn sem gerir tæplega 30.000 konur og börn. Einstæðar mæður hafa þurft á meiri fjárhagsaðstoð að halda en aðrar fjölskyldugerðir.


Svo virðist sem stór hluti þessara kvenna búi við mikla neyð. Meirihluti þeirra segist eiga erfitt með að ná endum saman, vanskil lána hafa aukist töluvert og samkvæmt tölum Barnaverndastofu frá 2008 býr um þriðjungur barna sem sækja áfengis- og vímuefnameðferðir og ríflega 40% barna í málum barnaverndarnefnda hjá einstæðum mæðrum. Þetta kemur fram í skýrslunni Konur í kreppu sem unnin var fyrir Velferðarvaktina. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir að þrátt fyrir þessar staðreyndir fjölgi einstæðum mæðrum. Hluti skýringarinnar sé sá að skilnuðum fjölgi vegna álags í samfélaginu. Hún segir það vera mjög sérkennilegt, miðað við þessar erfiðu aðstæður, að fólk skuli ekki fresta því að eiga börn.


Kristín segir að leiða megi líkur að því að hluti einstæðra kvenna eignist börn til að fá hærri framfærslustyrk. Það sé eitthvað sem þyrfti að skoða mjög rækilega. Það sé auðvitað hugsanlegt. Einstæðar mæður fái fæðingarorlof í sex mánuði og margar þeirra með það lág laun að þær verði kannski ekki fyrir jafn mikilli skerðingu eins og ýmsir aðrir.