Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Barnaverndarstofa andvíg umskurðarfrumvarpi

29.03.2018 - 08:57
epa03002966 A picture made available on 14 Novermber 2011 shows Surgeon Gabor Hollos arranging medical tools prior to the traditional Jewish circumcision ceremony of eight-day-old Ruben in the Bet Shalom synagogue in Budapest, Hungary, 13 November 2011
 Mynd: EPA
Barnaverndarstofa leggst gegn frumvarpi Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um að umskurður sveinbarna verði gerður refsiverður. Í umsögn stofnunarinnar um frumvarpið segir að verði það að lögum sé hætta á að aðgerðirnar verði gerðar í skjóli nætur við hættulegar aðstæður. Auk þess sé hætt við því að drengir sem voru umskornir vegna trúar sinnar upplifi sig óvelkomna eða mismunað á Íslandi.

Frumvarp Silju hefur vakið hörð viðbrögð og er ákaflega umdeilt. Gyðingar hafa fordæmt það og sagt það atlögu að trú þeirra, múslimar hafa einnig gagnrýnt það harðlega og biskup Íslands lýst efasemdum um það. 500 íslenskir rituðu hins vegar undir umsögn til stuðnings frumvarpinu og það sama gerðu þúsund læknar í Danmörku. Á móti kemur að Landlæknir og Félag hjúkrunarfræðinga hafa öll lagst gegn samþykkt frumvarpsins á þeirri forsendu að hætt sé við að aðgerðirnar færðust með því undir yfirborðið.

Umskornir drengir verði ekki litnir hornauga

Í umsögn Barnaverndarstofu, sem starfandi forstjóri, Heiða Pálmadóttir, ritar undir, segir að stofnunin sé sammála því meginmarkmiði frumvarpsins að banna inngrip í líkama barna sem ekki séu nauðsynleg af læknisfræðilegum ástæðum. Hins vegar sé nauðsynlegt að sú umræða fari fram á almennari grundvelli en frumvarpið geri ráð fyrir.

Þá segir að stofnunin telji „mikilvægt að öll börn á Íslandi upplifi að þau séu velkomin og tryggja þurfi að börn sem alast upp við trúarlegan bakgrunn sem er ólíkur þeim sem flestir Íslendingar alast upp við fái það ekki á tilfinninguna að þau séu óvelkomin hér á landi eða litin hornauga“. Hætt sé við því að það gerist ef umskurður verði gerður refsiverður.

Hætta á umskurði við lífshættulegar aðstæður

Í umsögninni segir einnig að rétt sé að vekja athygli allsherjar- og menntamálanefndar á því að „veruleg hætta“ sé á því að verði umskurður gerður refsiverður verði aðgerðirnar gerðar í skjóli nætur við hættulegar aðstæður þar sem ekki sé notuð deyfing eða sótthreinsað. Það geti verið drengjum lífshættulegt.

Að lokum segir að Barnaverndarstofa fagni því ef Ísland ætli að skipa sér í fremstu röð hagsmunagæsluaðila barna en hvetji til þess að það verði gert með fræðslu og samtölum hérlendis sem erlendis. „Ísland getur orðið leiðandi afl í að breyta viðhorfum heimsbyggðar gagnvart umskurði en það verður ekki gert með því að gera athöfnina refsiverða,“ segir í umsögninni.