Barnavernd verður efld fyrir 90 milljónir

15.11.2018 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stöðugildum hjá Barnavernd Reykjavíkur verður fjölgað um fjögur og tvær fagskrifstofur verða settar á laggirnar. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag tillögu velferðaráðs og barnaverndarnefndar um að styrkja starfsemi Barnaverndar. Fræðsluhlutverk stofnunarinnar verður aukið um leið.

Fagskrifstofunnar verða á sviði stjórnsýslu, með áherslu á lagalega umgjörð í barnaverndarmálum, gæða- og fræðslumál. Hin fagskrifstofan mun leggja áherslu á ráðgjöf og stuðning við börn og foreldra. Með þessu færist Barnavernd Reykjavíkur ofar í skipuriti velferðarsviðs borgarinnar. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu úr Ráðhúsinu. Áætlaður kostnaður við aðgerðirnar til þess að styrkja starfsemina nemur um 90 milljónum króna á næsta ári. 

Hákon Sigursteinsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, mun leiða breytingarnar. Áætlað er að auglýsa störf og fleiri stöður á næstu vikum. Stofnað verður til samstarfs við helstu hagsmunaaðila og flýtt verður fyrir notkun rafrænna lausna í daglegri umsýslu. Þá verða húsnæðismál Barnaverndar endurskoðuð. 

Farið er í þessar aðgerðir í kjölfar úttektar sem gerð var á skipulagi og verklagi Barnaverndar Reykjavíkur. Í úttektinni, sem unnin var af RR ráðgjöfum og Capacent, kemur fram að „öflugt og faglegt starf sé unnið hjá Barnavernd Reykjavíkur en tækifæri [eru] til umbóta“. 

Í niðurstöðum úttektarinnar á barnavernd á Íslandi kemur fram að barnaverndarstarf hér á landi hafi liðið fyrir óskýra verkaskiptingu og tortryggni í samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga. Aðilar vísi ábyrgð á verkefnum og þjónustu sín á milli, í stað þess að leita lausna með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Í einhverjum tilvikum virðist skorta skilning á hlutverki og verkaskiptingu. 

Þá kemur það fyrir að þjónusta eða úrræði falli milli þjónustukerfa og lagaramma. Framboð af viðeigandi úrræðum er ekki nægjanlegt og biðtími í úrræði er of langur. 

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi