Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Barnaníðshneyksli skekur Chile

This frame taken from video provided by the CTV Vatican television Thursday, May 17, 2018, Pope Francis, center, poses for a picture with Chilean Bishops during a meeting at the Vatican. The Bishops announced Friday at the end of an emergency summit, over
Frans páfi kallaði alla biskupa Chile á sinn fund fyrr á árinu til að ræða við þá kynferðisofbeldismál kirkjunnar þjóna í landinu. Mynd: AP - CTV-Sjónvarp Páfagarðs
Fyrrverandi erkibiskup kaþólsku kirkjunnar í Chile hefur verið handtekinn vegna gruns um kynferðisafbrot gegn börnum. Fjórir aðrir prestar eru einnig til rannsóknar vegna slíkra brota.

Lögregla framdi húsleitir í borgunum Temuco og Vilarrica og lagði höld á ýmis gögn og tölvubúnað í kjölfar þess að biskupar þar neituðu að aðstoða hana við rannsókn á meintri misnotkun prestana fimm.

Háttsettur prestur í kaþólsku kirkjunni í Chile, Oscar Munoz, var handtekinn á fimmtudag vegna ásakana um að hann hafi misnotað og nauðgað sjö börnum frá árinu 2002. Munoz var erkibiskup í höfuðborginni Santiago en brotin eiga að hafa átt sér stað þar og í borginni Rancagua, sem er í suðurhluta landsins.

Munoz á yfir höfði sér 15 ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur.

Málið hefur komið sér afar illa fyrir kaþólsku kirkjuna í Chile en tugir presta hafa verið sakaðir um að hafa beitt börn kynferðislegu ofbeldi. Frans páfi hefur tekið við afsögnum fimm biskupa í landinu vegna þessa, þar af voru fjórir sakaðir um að hafa hunsað merki um misnotkun eða hylmt yfir slíkt.