Ferðamennirnir sem lentu í alvarlegu umferðarslysi á Skeiðarársandi í morgun voru breskir ríkisborgarar. Þrír eru látnir og fjórir hafa verið fluttir með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir að svo virðist sem ökumaður hafi misst stjórn á bílnum og hafi bíllinn farið í gegnum vegriðið á brúnni við Núpsvötn. Bíllinn hafi ekki farið í ána heldur lent á þurru á aurunum. Segir hann þó að ómögulegt sé að segja með vissu hver orsök slyssins er að svo stöddu en það komi betur í ljós þegar rannsókn á vettvangi er komin lengra. Hiti sé í kringum núll stig á svæðinu og því gæti hálka hafa myndast á brúnni.
Þá staðfesti hann að barn væri á meðal látinna og að þeir fjórir sem fluttir voru á sjúkrahús í Reykjavík hafi allir verið með meðvitund þegar viðbragsaðilar mættu á staðinn.
Sveinn segir að vegurinn verði lokaður eitthvað fram eftir degi. Rannsókn á vettvangi muni taka talsverðan tíma og fjarlægja þurfi bílinn.