Barkaígræðslur kærðar til lögreglu

27.05.2015 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Karolinska Universitetssjukhuset
Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi hefur verið kært til lögreglu vegna aðgerða á barka sem gerðar voru á spítalanum. Erítreumaður, sem búsettur var á Íslandi, fór í slíka aðgerð.

Erítreumaðurinn Andemariam Beyene greindist með alvarlegt krabbamein í barka þegar hann var við nám í Háskóla Íslands árið 2009. Hann hlaut læknismeðferð hér á landi og síðar í Svíþjóð þar sem græddur var í hann plastbarki árið 2011. Þar með var brotið blað í sögu læknavísindanna. Ítalskur læknir, Paolo Macchiarini, gerði aðgerðina.

Heilsu Beyenes hrakaði hins vegar og hann lést í janúar í fyrra. Greint er frá því á vef sænska ríkisútvarpsins að búið sé að kæra Karólínska sjúkrahúsið, þar sem aðgerðin var framkvæmd, til lögreglu. Macchiarini hafi grætt átta plastbarka í fólk, þar af séu fjórir látnir. Macchiarini er meðal annars sakaður um að hafa falsað niðurstöður fyrstu aðgerðarinnar. Macchiarini og fjölmargir aðrir vísindamenn birtu grein um aðgerðina á Beyene í hinu virta tímariti Lancet. Á meðal meðhöfunda voru íslensku læknarnir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson.

Í greininni kemur fram að aðgerðin hafi heppnast vel og að aðferðin virki. Eftir að greinin birtist hófu hins vegar fjórir af meðhöfundunum rannsókn á málinu sem endaði með því að yfirmenn Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi hófu formlega rannsókn. Í viðtali við sænska ríkisútvarpið segir yfirmaður rannsóknarinnar að Macchiarini hafi sagt ósatt um árangurinn af fyrstu aðgerðinni. Þá hafi hann ekki rannsakað sjúklinginn áður en hann birti niðurstöðurnar. Sænska Lyfjastofnunin hefur nú kært spítalann til lögreglu vegna málsins.

Frétt SVT um málið.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi