Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Baráttan um Bessastaði kostaði 80 milljónir

27.09.2016 - 08:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjórir forsetaframbjóðendur vörðu tæplega 78 milljónum í kosningabaráttu sína í sumar - þau Halla Tómasdóttir, Andri Snær Magnason, Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson. Framboð Davíðs var dýrast - það kostaði tæpar 28 milljónir en hann og eiginkona hans lögðu sjálf til tæpar 12 milljónir. Heildarkostnaður frambjóðenda í forsetakosningunum fyrir fjórum árum nam rúmlega 27 milljónum.

Ríkisendurskoðun hefur birt útdrátt úr endurskoðuðu uppgjöri hjá fjórum frambjóðendum og yfirlýsingu frá Hildi Þórðardóttur þar sem kemur fram að kostnaður við framboð hennar hafi ekki farið yfir 400 þúsund.

Hinir þrír eru Guðrún Margrét Pálsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Davíð Oddsson og Halla Tómasdóttir en kostnaður við framboð Guðrúnar Margrétar nam rúmri hálfri milljón.

Andri Snær Magnason sendi mbl.is í gær útdrátt úr endurskoðuð uppgjöri sínu en það hefur ekki birst á vef Ríkisendurskoðunar. Hið sama má segja um framboð Sturlu Jónssonar, Elísabetar Jökulsdóttur og Ástþórs Magnússonar - þau hafa hins vegar öll sagt að kostnaður við framboð þeirra hafi verið undir 400 þúsund króna lágmarkinu. 

Miðað við það hafa forsetaframbjóðendurnir varið tæplega 80 milljónum í kosningabaráttuna í sumar. Þar skera fjórir frambjóðendur sig nokkuð úr - Halla, Davíð, Guðni og Andri. 

Kostnaður við framboð Höllu nam 8,9 milljónum. Framlög fyrirtækja námu 3,7 milljónum - meðal þeirra voru Ölgerðin, Nes Capital og Veritas Capital sem öll styrktu framboð hennar um 400 þúsund. Sjálf lagði Halla til 2 milljónir og framlög einstaklinga námu 3,1 milljón. Ekki kemur fram í útdrættinum hversu margir þeir voru.

Kostnaður við framboð Andra Snæs nam 15 milljónum miðað við uppgjörið sem hann sendi mbl.is.  Hann lagði sjálfur til tæpa milljón og framlög fyrirtækja námu tæpri 1,4 milljón króna.  Meðal þeirra var Títan fjárfestingafélag sem styrkti framboðið um 400 þúsund krónur en það er í eigu Skúla Mogensen. Alls styrktu 216 einstaklingar framboðið - í þeim hópi voru meðal annars leikkonan og listamaðurinn Edda Heiðrún Backman og athafnakonan Lilja Pálmadóttir. 

Kostnaður við framboð Guðna Th. Jóhannessonar nam rúmum 26 milljónum - hann lagði sjálfur til rúma milljón og fékk 10,9 milljónir frá fyrirtækjum. Í þeim hópi voru meðal annars Alvogen, Hekla, ráðgjafafyrirtækið KOM og Ölgerðin. Rúmar 13 milljónir komu frá 816 einstaklingum - meðal þeirra sem styrktu Guðna um 400 þúsund hvor voru Guðmundur Kjærnested og faðir hans Símon Kjærnested.

Framboð Davíðs Oddssonar var dýrast en kostnaður við það nam tæpum 28 milljónum. Sjálfur lagði hann og eiginkona hans tæpar 12 milljónir í framboðið. Framlög fyrirtækja námu 8,2 milljónum. Þar voru áberandi fyrirtæki sem eiga hlut í Þórsmörk sem á nær allt hlutafé í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins.  

Alls styrktu 43 einstaklingar framboð Davíðs og nam sú upphæð 8,1 milljón. Í þeim hópi voru meðal annars Kristján Loftsson, stjórnarformaður HB Granda og Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV