Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bára valin manneskja ársins á Rás 2

31.12.2018 - 15:35
Mynd:  / 
Hlustendur Rásar tvö völdu Báru Halldórsdóttur manneskju ársins. Bára tók upp samtal sex þingmanna á barnum Klaustri 20. nóvember síðastliðinn. Hún ákvað að taka samræðurnar upp þegar hún heyrði orðfæri þingmannanna er þeir létu gamminn geisa um menn og málefni, oft með ógeðfelldum hætti. Tilkynnt var um niðurstöðu kosningar á manneskju ársins í þættinum Á síðustu stundu á Rás 2.

Bára fékk um 30 prósent atkvæða og kveðst ánægð með titilinn og að það sé skrítin tilfinning að taka við verðlaunum sem þessum, það sé ekki eitthvað sem hún geri daglega. Hún segir að það hafi verið það eina rétta í stöðunni að birta upptökurnar og að hún hafi fengið góð viðbrögð frá almenningi. Ókunnugt fólk hafi faðmað hana á förnum vegi, til dæmis þrír í versluninni Costco á dögunum.

Lesendur Vísis og hlustendur Bylgjunnar völdu Báru sömuleiðis mann ársins. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir