Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bara spurning hvort menn hafi kjark og þor

10.12.2018 - 22:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir um fyrirætlaðar breytingar á samgönguáætlun, um að veggjöld verði tekin upp um land allt, að hann telji að efnislega séu flestir sammála. „Við erum búin að vinna mjög náið með umhverfis- og samgöngunefnd núna síðustu tvær, þrjár vikurnar, og ég hef ekki heyrt neinn vera andsnúinn þessum hugmyndum. Nú er bara spurningin hvort menn hafi kjark og þor í að taka þetta stóra stökk í þágu umferðaröryggis og bættra framkvæmda."

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur síðustu daga haft til skoðunar drög að breytingartillögum meirihluta nefndarinnar við samgönguáætlun um að taka upp veggjöld um allt land. Er þá átt við allar leiðir inn og út af höfuðborginni en einnig um allt land og þá sér í lagi í kringum göng. Til lengri tíma mun fjármagnið skila milljörðum í ríkissjóð og stendur til að það fjármagn verði notað til vegagerðar.

Jón Gunnarsson starfandi formaður samgöngunefndar segir breytingartillögurnar snúast um það að tekin verði grundvallarákvörðun um það að hefja hér flýtiframkvæmdir eða auka framkvæmdahraðann á næstu árum á grundvelli gjaldtöku. „Almennt hefur þjóðfélagsumræðan breyst mjög mikið, fólk áttar sig á því að þetta gríðarstóra verkefni sem fyrir framan okkur er verður ekki leyst nema til komi einhverjar nýjar leiðir."

Nokkrir þingmenn úr stjórnarandstöðuflokkum gera alvarlegar athugasemdir við það að svo stórar grundvallarbreytingar séu lagðar fram þegar vika er eftir af þingstörfum en samgönguáætlun þarf að samþykkja fyrir áramót.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir mjög erfitt að sjá það gerast. „Sérstaklega ef maður vísar í stjórnarsáttmálann, hvernig mál eiga í raun að fá þinglega meðferð og umsagnir almennings, að troða svona risastóru máli eins og veggjöldum, sem hefur verið í mikilli umræðu undanfarna áratugi á Íslandi bara í gegn á einni viku."

Nú er tækifærið

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir að loksins sé kominn tími á stóra stökkið í umferðaröryggismálum. „Í auknum framkvæmdum í vegakerfinu, í flýtingu verkefna, og það sem hefur kannski legið þar til grundvallar er annars vegar loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar um orkuskipti sem gerir það að verkum að tekjurnar eru að hverfa og þess vegna þurfum við að fara í breytta gjaldtöku, sem og tímamótasamkomulag við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bæði er varðar almenningssamgöngur sem og uppbyggingu samgangna. Ég held að tækifærið sé núna og fyrir nefndina þá hef ég heyrt að allir gestir sem þangað komu voru hlynntir því að fara þessa leið og ég held það sé núna tækifæri fyrir þetta stóra stökk."

En af hverju er þetta gert með þessum hætti, sem breytingatillaga við samgönguáætlun í staðinn fyrir að koma bara með þetta strax í haust?

„Það var einfaldlega vegna þess að við vorum með nokkra starfshópa að störfum. Við orðuðum þetta í samgönguáætluninni, að þetta gæti orðið niðurstaðan, til að mynda tillögurnar er varða innanlandsflugið, tillögurnar er varða framkvæmdirnar á höfuðborgarsvæðinu, sem og þessi hópur, sem reyndar skilar ekki endanlega af sér fyrr en í janúar um breytta gjaldtöku, bæði til skamms tíma, er varðar flýtingu verkefna, og hins vegar til breyttrar gjaldtöku í vegakerfinu til lengri tíma. Nú er tækifærið."

Hvernig ætlið þið að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna? Margir þar eru á móti þessu, sérstaklega að flýta þessu svona í gegn.

„Ég held að efnislega séu flestir á þessu og við erum búnir að vinna mjög náið með umhverfis- og samgöngunefnd núna síðustu tvær, þrjár vikurnar, og ég hef ekki heyrt neinn vera andsnúinn þessum hugmyndum. Nú er bara spurningin hvort menn hafi kjark og þor í að taka þetta stóra stökk í þágu umferðaröryggis og bættra framkvæmda."

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV