Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Bara karlar í íslensku sendinefndinni

25.06.2013 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Evrópuráðsþingið kom saman í gær og athugasemdir voru gerðar við skipan Íslandsdeildar þess, hún er einvörðungu skipuð körlum.

Karl Garðarsson, Framsóknarflokki, er formaður Íslandsdeildarinnar og aðalmenn með honum Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki og Ögmundur Jónasson, VG. Varamenn eru Guðbjartur Hannesson, Samfylkingu, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Framsóknarflokki og Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki. Í reglum þingsins segir að í deildum þess eigi að vera að minnsta kosti einn þingmaður af því kyni sem á hallar.

Jose Mendes Bota, þingmaður frá Portúgal benti á að kynjahlutföll deildanna eigi að vera í samræmi við hlutföll kynjanna á þjóðþingum og að þar ætti að vera að minnsta kosti ein kona. Þvi væri ekki svo farið með Íslandsdeildina, í henni væru bara bara karlar. Athugasemdir hans studdu, í samræmi við reglur þingsins,  að minnsta kosti tíu fulltrúar, frá fimm þjóðum hið minnsta.

Um málið verður fjallað sérstaklega í undirnefnd Evrópuráðsþingsins og þá hvort fulltrúar Íslands verða samþykktir. Niðurstöðu er að vænta síðdegis á morgun. Þangað til mega íslensku fulltrúarnir taka sæti á þinginu og hafa tillögu og atkvæðisrétt.

Evrópuráðsþingið kemur saman fjórum sinnum á ári og það sitja 318 fulltrúar frá þeim 47 ríkjum sem eiga aðild að ráðinu.