Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bannon boðar ofurbandalag í Evrópu

22.07.2018 - 11:09
Stephen Bannon fylgist með embættistöku Trumps, 20. janúar 2017.
 Mynd: EPA
Stephen Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trumps, ætlar að stofna ofurbandalag þjóðernispopúlista í Evrópu sem á að nefnast Hreyfingin. Bandalaginu verður meðal annars ætlað að berjast gegn áhrifum ungversk-bandaríska auðkýfingsins George Soros og samtaka hans, Open Society Foundation.

Þetta kemur fram í viðtali við Bannon sem birtist á vefsíðunni The Daily Beast og bresku miðlarnir Guardian og Telegraph greina frá. „Soros er snillingur,“ er haft eftir Bannon í viðtalinu. „En hann er illmenni,“ bætir Bannon við.

Hann segist hafa átt fundi með helstu forsvarsmönnum þjóðernispopúlista í Evrópu að undanförnu, meðal annars Nigel Farage, fyrrverandi leiðtoga UKIP, félögum í frönsku Þjóðfylkingunni, flokki Marine Le Pen, og Viktori Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Orban hefur einmitt stillt sér upp sem einum helsta andstæðingi Soros.

Bannon vonast til að bandalaginu takist að tryggja sér þriðjung sæta á Evrópuþinginu í kosningum næsta vor og hann ætlar að verja drjúgum tíma í Evrópu eftir kosningar sem verða í Bandaríkjunum í nóvember.

Bannon er af mörgum talinn maðurinn á bak við sigur Donalds Trumps í forsetakosningunum í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum. Hann var nánasti ráðgjafi forsetans fyrstu mánuðina í Hvíta húsinu en lenti upp á kant við dóttur Trumps og tengdason, og hætti um miðjan ágúst á síðasta ári. 

Hann var endanlega settur út af sakramentinu vegna ummæla sem höfð voru eftir honum í bókinni Fire and Fury eftir bandaríska blaðamanninn Michael Wolff. Þar líkti hann fundi, sem sonur Trumps átti með hópi Rússa í Trump-turninum, við landráð.

Bannon hefur verið sakaður um kynþáttahyggju og tengist öfgahópum sem trúa á yfirburði hvítra manna. Í umfjöllun Newsweek haustið 2015 var hann kallaður hættulegasti stjórnmálamaður Bandaríkjanna. Ítarlega fréttaskýringu um Bannon er hægt að lesa hér.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV