Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bannar að framselja tyrkneska hermenn

Mynd með færslu
Tyrknesku hermennirnir mæta í réttarsl í Aþenu í fylgd grískra lögreglumanna. Mynd: EPA - ANA-MPA
Hæstiréttur Grikklands bannaði í dag framsal átta yfirmanna í tyrkneska hernum sem leituðu hælis í Grikklandi eftir misheppnað valdarán hersins í Tyrklandi í fyrrasumar. Ríkisstjórn Erdogans Tyrklandsforseta hefur krafist þess að mennirnir verði framseldir.

Í úrskurði hæstaréttar Grikklands er tekið undir þá skoðun ákæruvaldsins að mennirnir geti ekki vænst óhlutdrægra réttarhalda í Tyrklandi og því verði þeir ekki sendir heim. Að auki fyrirskipaði hæstiréttur að áttmenningarnir yrðu látnir lausir úr varðhaldi.

Nokkru eftir að niðurstaða réttarins lá fyrir var gefin út handtökuskipun á hendur hermönnunum í Tyrklandi. Þeim er gefið að sök að hafa átt þátt í valdaránstilrauninni í júlí síðastliðnum.

Þá lýsti utanríkisráðuneytið í Ankara því yfir að vegna niðurstöðu hæstaréttar yrðu samskiptin við grísk stjórnvöld endurmetin. Það nær til sameiginlegrar baráttu þjóðanna gegn hryðjuverkamönnum og annarra málefna. Í yfirlýsingunni segir að utanríkisráðuneytið líti svo á að niðurstaðan sé af pólitískum rótum runnin.

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV