Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Bannað að henda pappír

25.09.2012 - 20:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Frá og með næstu mánaðamótum verður bannað að henda pappír og fernum með heimilissorpi í Reykjavík. Með sorpflokkun ætti að vera hægt að spara sorphirðugjöld sem greidd eru borginni.

Pappír er ekki rusl. Það eru einkunnarorð kynningarátaks Reykjavíkurborgar en um næstu mánaðarmót tekur sorphirða í borginni stakkaskiptum. Allur pappír sem fellur til á heimilum á að fara í endurvinnslu ekki í ruslatunnuna. Breytingin hefst á Kjalarnesi 1. október og nýtt hverfi bætist við um hver mánaðamót. Áætlað er að allir íbúar borgarinnar verði farnir að flokka í maí á næsta ári.

Valkostir íbúa eru tveir: Að panta bláa tunnu eða að koma pappír í svokallaða grenndargáma sem eru á um 80 stöðum í borginni. Þeir sem búa í fjöleignahúsi þurfa að taka sameiginlega ákvörðun um hvernig skila á pappírnum til endurvinnslu. Þeir sem velja bláa tunnu þurfa að ákveða hversu margar bláar tunnur þurfi fyrir húsið og jafnframt hvort fækka eigi almennu tunnunum á móti. Þannig má draga úr sorphirðugjöldum.

Pappírinn sem til fellur, er endurunninn í Svíþjóð og eins og fram kemur í upplýsingum frá Reykjavíkurborg er hann nýttur í eitt og annað. Úr fimm kössum úr sléttum pappa sem fara í endurvinnslu, má framleiða efni í fjóra. Allar nánari upplýsingar um breytingarnar má fá hjá Reykjavíkurborg.