Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Banna eitur og bjarga býflugum

27.04.2018 - 11:05
Erlent · - · Dýralíf · ESB · Stjórnmál
epa04654761 Bees fly back to their hive in Frankfurt/Main, Germany, 09 March 2015. Warm temperatures lured the insects out into the sunlight.  EPA/FRANK RUMPENHORST
 Mynd: EPA - DPA
Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu í dag nær algert bann við notkun utandyra á skordýraeitri sem talið er orsök fækkunar á hunangsflugum og öðrum frjóberum. Rannsókn á vegum Matvælaöryggisstofnunar Evrópu leiddi í ljós að eitrið, neonicotinoid, er ógn við margar tegundir býflugna, sama hvar og hvernig það er notað úti við.

ESB samþykkti árið 2013 að banna þrjú afbrigði af eitrinu við framleiðslu á maís, hveiti, byggi, höfrum og repjuolíu. Nýju reglurnar ganga lengra og með þeim er búið að  banna notkun við alla ræktun utandyra. Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá banninu. Í frétt BBC segir að eitrið sé mikið notað víða um heim. 

Þegar nýju reglurnar taka gildi verður aðeins heimilt að nota eitrið í gróðurhúsum í löndum Evrópusambandsins. Umhverfisverndarsinnar hafa lýst yfir áhyggjum af því að eitrið geti komist í vatn þegar það er notað í gróðurhúsum. Áfram verður leyft að nota nokkrar tegundir af eitrinu, svo sem thiacloprid og sulfoxaflor.

Býflugur hjálpa til við frjóvgun á um 90 prósentum af uppskeru kornræktar í heiminum. Á undanförnum árum hefur býflugum fækkað mikið. Þá hafa rannsóknir sýnt að eitrið geti valdið því að flugurnar tapa áttum og eiga erfitt með að rata aftur í býflugnabúin og hafa minna viðnám við sjúkdómum.

Umhverfismálastjóri ESB, Vytenis Andriukaitis, sagði í samtali við AFP fréttastofuna að hann væri ánægður með niðurstöðuna í dag og birti mynd af aðgerðasinnum sem söfnuðust saman við höfuðstöðvar ESB í morgun til að knýja á um bannið. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir