Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bann við netaveiði úrskurðað ólögmætt

Mynd með færslu
Veiðifélögin telja að villta laxastofninum sé búin hætta ef laxeldisáform ná fram að ganga. Mynd: Ásgeir Jónsson - RÚV
Félagsmönnum í Veiðifélagi Árnesinga var ekki heimilt að samþykkja bann við netaveiði í Ölfusá og Hvítá. Þetta er niðurstaða Fiskistofu. Hluti félagsmanna tók í vor aðalfund félagsins yfir og knúði fram bann, þeir sem voru ósáttir kærðu. 

 

Vildi færa félagið til nútímans

Á aðalfundinum, sem var haldinn í apríl, var samþykkt að frá sumrinu 2019 yrði eingöngu heimilt að veiða á stöng á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár, netaveiðar yrðu bannaðar. Drífa Kristjánsdóttir, félagsmaður, aflaði umboðs 88 félagsmanna, tók yfir fundinn og sagðist vilja færa félagið til nútímans. Tillaga Drífu um breytta veiðitilhögun var samþykkt með 88 atkvæðum gegn 68. 

„Búið að staðfesta það sem við trúðum“

Jörundur Gauksson, formaður veiðifélagsins, er ánægður með úrskurðinn. „Mönnum er auðvitað létt að það er búið að staðfesta það sem við trúðum, að um ólögmæta ákvörðun hefði verið að ræða.“ 

En hvað gekk Drífu og félögum til? „Við viljum auka virði alls vatnasvæðisins.“ Stórlaxarnir sem séu drepnir í netum neðarlega í ánni gangi ekki upp í hana og hrygni ekki, hún segist hafa áhyggjur af afkomu stofnsins og telur fyrirkomulagið ekki í samræmi við tilmæli Hafrannsóknarstofnunar. 

Segir netaveiðimenn stjórna 

Jörundur segir að félagsmenn hafi verið mjög samtaka fram að téðum aðalfundi. Drífa er ekki á sama máli. „Það liggur bara fyrir að netaveiðimenn hafa stjórnað félaginu alveg.“ 

Brýtur í bága við samþykktir

Þrír félagsmenn kærðu samþykktina, sögðu víða útilokað að veiða á stöng og ólögmætt að meina netaveiðimönnum að nýta hlunnindi sín. Kærendur byggðu á því að fundarboð hefði verið ófullnægjandi og atkvæðagreiðslan því óheimil, samþykkt tillögunnar brjóti í bága við samþykktir Veiðifélags Árnesinga um að á meðal verkefna félagsins sé að heimila félagsmönnum veiði í net eða á stöng og lagaákvæði um nýtingaráætlanir, ákvörðun um að takmarka veiði í net beri að taka með setningu nýrrar nýtingaráætlunar, í lögum sé hvergi heimild til að setja nýtingaráætlun til bráðabirgða. 

Fiskistofa féllst á að tillagan hafi verið andstæð samþykktum félagsins. Því í henni fælist að óheimilt yrði að stunda veiðar í net. Þá er það mat stofnunarinnar að málið sé þess eðlis að eðlilegast væri að fá úr því skorið fyrir dómstólum. 

Drífa segir hópinn ekki hafa tekið ákvörðun um hvort farið verði lengra með málið.

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV