Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bankarnir stuðli að tveimur þjóðum á Íslandi

14.02.2019 - 21:23
Mynd:  / 
Það verður að grípa inn í launaþróun æðstu yfirmanna í fyrirtækjum í almannaeigu, segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Hann hefur gagnrýnt launahækkanir Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, og sagt þolinmæði sína á þrotum gagnvart slíku rugli.

„Við erum að horfa upp á fyrirtæki sem eru í almannaeign. Þau eru að hækka laun stjórnenda sinna og ýta undir það að það séu tvær þjóðir í þessu landi,“ sagði Ásmundur Einar í Kastljósi í kvöld. „það gefur auðvitað auga leið að það er ekki svigrúm til slíkra launahækkana niður allan stigann eins og bankastjórinn gerir við sjálfan sig.“

Hægt er að horfa á allt viðtalið við Ásmund Einar í spilaranum hér að ofan.

Ásmundur Einar hefur kjaramálin á sínu borði í félagsmálaráðuneytinu. „Ég get alveg sagt það hér í fullri hreinskilni, í tengslum við kjaraviðræður, að þegar maður sér ákvarðanir teknar úr öllum takti við raunveruleikann í samfélaginu að þá spyr maður sig óneitanlega hvort að aðrar ákvarðanir sem teknar eru innan þessara stofnana séu teknar með jafn brenglað veruleikaskyn og þarna er gert.“

Ríkisfyrirtæki bjóði upp á ójöfnuð

„Ég hef áhyggjur af því að við skulum búa í samfélagi þar sem ríkisfyrirtæki getur boðið upp á slíkan ójöfnuð.“ Hann segir stjórnmálamenn verða að íhuga hvaða lagabreytingar þurfi að setja til þess að stjórnmálin geti haft áhrif á laun stjórnenda opinberra fyrirtækja.

„Við þurfum að spyrja okkur hvaða lagabreytingar þarf að setja til þess að stjórnmálin geti haft áhrif á það, og stýrt því, með hvaða hætti laun í efstu stigum samfélagsins eru,“ segir Ásmundur og bætir við að hlutirnir megi ekki vera „þannig að stjórnmálamenn séu bara gapandi úti á túni gagnrýnandi bankaráðið sem ber í raun engin skilda til að hlusta á stjórnmálin, og bankaráð sem ber engin skilda til að hlusta á bankasýslu.“

„Það verður að grípa þarna inn í,“ segir hann. Spurður hvort það hafi ekki verið reynt til þrautar að koma böndum á launaþróun hæst launuðustu stjórnenda segir hann það verða að vera hægt. „Ef við trúum því ekki að þegar fyrirtæki í almenningseign er komið úr takt við það sem almenningur vill varðandi þætti eins og þessa, og þegar stofnunin er komin úr takt við umhverfið sem hún lifir í, því það hefur legið fyrir í lengri tíma að við værum að fara í þessa kjarasamninga og að það væri erfið staða á vinnumarkaði, að þá að sjálfsögðu verðum við að grípa inn í.“

En hvernig sér Ásmundur Einar fyrir sér að grípa inn í ástandið? „Það er það sem verið er að fara yfir. Vegna þess að það liggur alveg ljóst fyrir að á sama tíma og við erum að gera kjarasamninga þá getur ríkið ekki gengið fram með þessum hætti.“

„Við getum gripið inn í með lagabreytingum um það að starfskjarastefnur bankanna skuli mótast af hálfu stjórnvalda og skuli taka mið af öðrum hækkunum á markaði. Þetta er allt saman til skoðunar. Fyrsta skrefið er að bankaráðið og Bankasýslan getur axlað ábyrgð á þessu sjálft.“