Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Bandarískur hermaður á þjóðveldisöld

Mynd með færslu
 Mynd:

Bandarískur hermaður á þjóðveldisöld

11.02.2014 - 20:52
Ímyndum okkur að Íslendingur úr nútímanum ferðaðist aftur um nokkrar aldir. Yrðum við virkilega að einhverju gagni í heimi þar sem ekkert er rafmagnið eða netsambandið? Það er oft sagt að fortíðin sé framandi land og það örugglega rétt lýsing á Íslandi fyrri alda fyrir okkur.

Lemúrinn á Rás 1 fjallar um tímaferðalög. Eru þau möguleg? Kafað er í ýmsar sögur sem fjalla um tímaflakk. Rætt er um það þegar argentínski rithöfundurinn Borges hitti sjálfan sig. Og um smásögu eftir bandarískan rithöfund um amerískan dáta á Íslandi sem ferðast aftur til þjóðveldisaldar.

Dansk-bandaríski vísindaskáldsöguhöfundurinn Poul Anderson velti þessu mikið fyrir sér. Anderson, sem lést árið 2001, var einn af merkustu höfundum Bandaríkjanna í sinni grein á tuttugustu öld og skrifaði ógrynni vinsælla bóka á sviði fantasíu og vísindaskáldsagna.

Og árið 1956 birti hann smásöguna The Man Who Came Early (Maðurinn sem kom snemma) í tímaritinu The Magazine of Fantasy and Science Fiction.

Sagan fjallar um bandaríska dátann Gerald Roberts sem sinnir herskyldu í herstöðinni í Keflavík á dögum kalda stríðsins. Hann er ungur maður og var við nám í verkfræði í háskóla áður en skyldan kallaði.

Gerald er á göngu í Reykjavík dag einn í rigningu og roki þegar eldingu lýstur skyndilega niður og hæfir hann.

Þegar hann vaknar úr rotinu liggur hann í fjörunni á ókunnum stað. Fjarri mannabyggðum að því er virðist. Þangað til hann hittir nokkra Íslendinga frá þjóðveldisöld. Eldingin flutti hann aftur til tíundu aldar á Íslandi.

Fylgist með Lemúrnum.is og Lemúrnum á Facebook.