Bandaríkjamenn skeina í burt skóga Kanada

03.03.2019 - 07:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Dálæti Bandaríkjamanna á lúxus-salernispappír á talsverðan þátt í eyðingu skóga í nágrannaríkinu Kanada. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu tveggja umhverfisverndarsamtaka.

Nærri 60% landsvæðis Kanada er skógi vaxið. Skógarnir draga í sig mikið magn koltvísýrings úr andrúmsloftinu, eða sem nemur árlegum útblæstri um 24 milljóna fólksbíla. Timbur er meðal helstu útflutningsvara Kanada og eru rúmir 113 þúsund ferkílómetrar skóglendis nýttir til skógarhöggs á ári hverju. Til viðmiðunar er flatarmál Íslands um 103 þúsund ferkílómetrar.

Mauk úr nýjum trefjum, lykilhráefni salernispappírs, er ástæða tæplega fjórðungs alls útflutnings timburvara frá Kanada. Samkvæmt skýrslu náttúruverndarsamtakanna Natural Resources Defense Council og Stand.earth neita stærstu framleiðendur salernispappírs að nota sjálfbærari hráefni í framleiðsluna. Að sögn Guardian eiga Bandaríkjamenn einna mesta sök á hversu mikið skógarhöggið er. Því þrátt fyrir að þeir telji aðeins um fjögur prósent mannkyns nota þeir yfir fimmtung allra pappírsþurrkna heimsins. Fjögurra manna bandarísk fjölskylda notar að meðaltali um 45 kílógrömm af salernispappír árlega. 

Þetta er ekki fyrsta skýrslan sem sýnir fram á að notkun Bandaríkjamanna á salernispappír sé skaðleg fyrir umhverfið. Dálæti þeirra á ofurmjúkum marglaga pappír hefur verið sagt verra en mengun Hummerjeppa. Stofnanir og fyrirtæki nota þó yfirleitt salernispappír úr endurunnum hráefnum. Þá bendir Guardian þeim sem leita umhverfisvænna lausna á eldri aðferðir. Til dæmi aðferð Rómverja til forna sem festu svamp á prik, sem þeir settu svo í edikspott eftir notkun. Í Talmúð, lögbók gyðinga, er talað um að árangursríkast sé að nota möl á stærð við ólífu, hnetu eða egg.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi