Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bandaríkjamenn hrifnastir af Grímsey

18.12.2018 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandaríkin eru vænlegasta svæðið til að markaðssetja Grímsey fyrir erlenda ferðamenn. Niðurstöður könnunar sýna að Bandaríkjamenn eru mjög áhugsamir um ferðalög til Grímesyjar og erlendir ferðamenn hrifnastir af lundanum og staðsetningu eyjunnar.

Akureyrarstofa hefur á þessu ári stýrt undirbúningi við að markaðssetja Grímsey með áherslu á erlenda ferðamenn. Þar hefur kynningarefnis verið aflað og farið í greiningu á því hvaða markhópur er verðmætastur fyrir eyjuna. Meðal annars var rætt við fólk sem starfar við ferðaþjónustu í Grímsey og ferðafólk spurt um upplifun þess og viðhorf til Grímseyjar eftir heimsókn þangað.

Lega Grimseyjar og lundinn vekur mesta hrifningu

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur nú unnið skýrslu úr niðurstöðum könnunarinnar þar sem helst kemur fram að Bandaríkjamenn virðast vera mjög áhugasamir um Grímsey. Af þeim erlendu ferðamönnum sem tóku þátt í könnuninni voru Bandaríkjamenn fjölmennastir. Því er talið líklegst að Bandaríkin séu vænlegasta markaðssvæðið fyrir Grímsey. Í svörum kom fram að gestir frá Bandaríkjunum eru afar ánægðir með heimsókn til Grímseyjar og mesta hrifningu vekur lega eyjunnar við heimskautsbaug og fuglalífið. Sérstaklega lundinn.

Grímsey markaðssett á samfélagsmiðlum og víðar

Í tilkynningu frá Akureyrarstofu kemur fram að meginmarkmið þessa átaks sé að auka straum ferðamanna til Grímseyjar og styrkja stoðir ferðamennsku þar. Brýnt sé að blása til sóknar til að styrkja atvinnulíf í eyjunni, fjölga störfum í ferðamennsku og treysta þar búsetu. Til að vekja athygli á Grímsey verði því í upphafi nýs árs, birtar auglýsingar á grundvelli þeirra upplýsinga sem nú liggi fyrir, og ljósmyndum og myndböndum deilt á samfélagsmiðlum og víðar.