Bandaríkjamaður sem hvarf í Íran talinn af

26.03.2020 - 06:22
epa08322796 (FILE) - Afghans look at a billboard promising a reward for information leading to the recovery of US FBI ex-agent Robert Levinson, in Herat, near the Iranian border, in Afghanistan, 24 April 2012 (Reissued 25 March 2020). According to a statement by his family on 25 March 2020, former FBI agent Robert Levinson who went missing in Iran on 09 March 2007, is now believed dead.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjamaðurinn Bob Levinson, sem hvarf með dularfullum hætti árið 2007, lést í varðhaldi í Íran fyrir nokkru. Fjölskylda Levinsons greindi frá þessu í gærkvöld. Í yfirlýsingu fjölskyldunnar segir að bandarískir embættismenn hafi nýverið greint þeim frá þessu. Levinson var fyrrverandi starfsmaður bandarísku alríkislögreglunnar FBI.

Óvíst er hvenær eða hvernig hann lét lífið, en það var áður en COVID-19 faraldurinn dreifðist af miklum mætti um Íran. 

Levinson hvarf í mars árið 2007 á eyjunni Kish, þar sem færri reglur gilda um vegabréfsáritanir en á öðrum stöðum í Íran. Hann var sagður hafa verið að rannsaka framleiðslu á fölsuðum sígarettum. Washington Post greindi frá því árið 2013 að Levinson væri orðinn starfsmaður leyniþjónustunnar CIA. Hann hafi farið á eigin vegum í leiðangur til þess að safna upplýsingum innan Írans. Post greindi jafnframt frá því að CIA hafi á sínum tíma greitt eiginkonu Levinsons tvær og hálfa milljón bandaríkjadala í skaðabætur vegna hvarfs hans.

Fjölskylda Levinsons sakaði írönsk stjórnvöld um ítrekaðar lygar um hann. Þau hafa engar upplýsingar fengið um hvar lík hans er niðurkomið. Í yfirlýsingu fjölskyldunnar segir að hún ætli að verja því sem þau eiga eftir til þess að réttlætinu verði framfylgt. Þar benda þau einnig á bandarísk stjórnvöld sem sneru ítrekað baki við honum. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV