Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Bandaríkjaflug WOW air í uppnámi

30.01.2014 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Talsmenn flugfélagsins WOW air segja fyrirhugað áætlunarflug til Bandaríkjanna í uppnámi eftir nýja ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Samkeppniseftirlitið beindi þeim tilmælum til ISAVIA í byrjun nóvember að við úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir sumaráætlun þessa árs skyldi WOW air njóta forgangs þannig að tvær vélar félagsins fengju brottfarartíma frá Keflavík til Evrópu milli klukkan sjö og átta að morgni hvers dags og aðrar tvær til Bandaríkjanna milli klukkan hálf fimm og hálf sex. Með þessu vildi eftirlitið efla samkeppni í áætlunarflugi frá Íslandi. 

ISAVIA kærði niðurstöðuna hins vegar til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem ákvað fyrir helgi að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins taki ekki gildi fyrr en nefndin hafi lokið málinu, hvenær sem það verður. Rökin sem færð eru fram eru meðal annars þau að ákvörðunin sé íþyngjandi fyrir ISAVIA sem gæti þurft að endurskipuleggja komu- og brottfarartíma með skömmum fyrirvara og skapi auk þess óvissu fyrir erlend flugfélög sem áforma áætlunarflug til landsins.

Forsvarsmenn WOW air telja þessa ákvörðun setja fyrirhugað áætlunarflug til New York og Boston í uppnám og saka ISAVIA um að vernda hagsmuni og einokun Icelandair. Forsvarsmenn Isavia hafna þessu og segja úthlutun brottfarartíma ekki á þeirra könnu.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW, féllst á það í viðtali á Rás 2 að alla jafna væru afgreiðslutímar settir í alþjóðlegan banka eða úthlutunarferli sem færi í eðlilegan farveg. „Hins vegar hafa ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, og Samkeppniseftirlitið komist að mjög skýrri niðurstöðu, að ef það er þjóðhagslega hagkvæmt eða ef innlend samkeppnislög kveða svo á um, þá beri og geti yfirvöld tekið afgreiðslutíma, eða úthlutað nýjum afgreiðslutíma, til nýrra flugrekstraraðila, til þess að tryggja samkeppni.“