Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bandaríkin kalla starfsfólk í Haítí heim

15.02.2019 - 06:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandaríkjastjórn kallaði í gær til baka alla starfsmenn sendiráðs síns í Haítí sem ekki eru nauðsynlegir starfseminni. Ofbeldi og óeirðir hafa fylgt fjöldamótmælum á götum höfuðborgarinnar Port-au-Prince og víðar í landinu.

Jovenel Moise, forseti Haítí, flutti sjónvarpsávarp í gærkvöld, en það var í fyrsta sinn síðan mótmælaaldan hófst fyrir viku síðan sem hann lætur heyra í sér. Að minnsta kosti sjö eru látnir vegna mótmælanna í landinu. Mótmælendur krefjast þess að Moise forseti víki úr embætti vegna hneykslismáls tengdu olíusjóði Karíbahafsríkja. Í skýrslu sem gefin var út í janúar um misnotkun sjóðsins var fyrirtæki sem Moise stjórnaði nefnt. Það hafði hagnast á vegaframkvæmdum án þess að hafa undirritað samning.

Bandaríska utanríkisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöld þar sem starfsmönnum ráðuneytisins í Haítí sem ekki þurfa nauðsynlega að vera þar, og fjölskyldum þeirra, er skipað að koma sér aftur til Bandaríkjanna. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV