Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Banamenn Khashoggis þjálfaðir í Bandaríkjunum

31.03.2019 - 04:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Hluti aftökusveitarinnar sem réði sádiarabíska blaðamanninn Jamal Khashoggi af dögum gæti hafa hlotið hluta þjálfunar sinnar í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í grein blaðamannsins David Ignatius hjá Washington Post. Hann hefur rætt við á annan tug bandarískra og sádiarabískra heimildarmanna vegna málsins, sem allir vilja gæta nafnleyndar að sögn Ignatius.

Samkvæmt upplýsingum Washington Post hlutu nokkrir mannanna sem drápu Khashoggi á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl þjálfun hjá fyrirtæki á vegum bandaríska utanríkisráðuneytisins. Fyrirtækið Tier 1 group veitti þjálfun á grundvelli samnings við stjórnvöld um samstarf Bandaríkjanna og Sádi Arabíu á sviði leyniþjónustu og varnarmála, að sögn Washington Post. Þeim aðgerðum hefur nú verið hætt, í það minnsta í bili. Öðru samstarfsverkefni ríkjanna um aðstoð við að nútímavæða og veita leyniþjónustustarfsmönnum Sáda þjálfun hefur einnig verið frestað ótímabundið.

Ahmed al-Assiri, aðstoðarstjórnarndi leyniþjónustu Sádi Arabíu, var meðal þeirra sem tók þátt í leyniþjónustuverkefni ríkjanna. Verkefnið var unnið af fyrirtækinu Culpepeer National Security Solutions með aðstoð fyrrverandi starfsmanna bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Al-Assiri er einn þeirra sem sádiarabísk stjórnvöld eru með í haldi vegna rannsóknarinnar á morðinu á Khashoggi.

Samkvæmt heimildum Washington Post eru bæði fyrirtækin í eigu dótturfyrirtækja fjárfestingasjóðsins Cerberus Capital Management í New York. Fyrirtækið vildi hvorki játa því né neita að nokkur þeirra 17 Sáda sem sæta viðskiptabanni frá Bandaríkjunum vegna morðsins á Khashoggi hafi verið þjálfaðir af Tier 1.

Morðið á Khashoggi hefur valdið miklum innbyrðis pólitískum deilum í Bandaríkjunum. Forsetinn Donald Trump vill síður að málið hafi áhrif á samskipti ríkjanna, enda Sádar stórtækir kaupendur hergagna frá Bandaríkjunum. Flokksbræður Trumps í Repúblikanaflokknum vilja hins vegar fylgja niðurstöðum helstu leyniþjónusta ríkisins sem telja Mohammed Bin Salman, krónprins Sádi Arabíu, höfuðpaurinn á bak við morðið á Khashoggi.
Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir óháðri alþjóðlegri rannsókn á morðinu, en Sádar hafa viljað taka málið í eigin hendur. Þar hafa 11 ónefndir menn verið ákærðir, og eiga fimm þeirra yfir höfði sér dauðarefsingu verði þeir fundnir sekir.

Nærri hálft ár er liðið frá því Khashoggi var myrtur í Istanbúl. Hann fór inn á ræðisskrifstofuna til að sækja skjöl en sneri aldrei þaðan aftur. Lík hans hefur aldrei fundist.