Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Baldur sakfelldur

17.02.2012 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, var sakfelldur í Hæstarétti fyrir innherjasvik og skal sæta tveggja ára fangelsi. Þar með staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.

Sýnt þykir að Baldur hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir tæpar 190 milljónir króna, þremur vikum áður en bankinn féll. Baldur hafi, með setu sinni í samráðshópi um fjármálastöðugleika, fengið upplýsingar um stöðu bankans sem hinn almenni hluthafi hafði ekki.

Andvirði hlutabréfanna, að frádregnum kostnaði, verður gert upptækt, alls 174.764.352 krónur.

Ólafur Börkur Þorvaldsson, hæstaréttardómari skilaði sératkvæði, hann vildi sýkna Baldur þar sem ekki þætti sýnt að upplýsingarnar sem hann hefði búið yfir gætu talist innherjaupplýsingar.

Karl Axelsson, verjandi Baldurs, segir að dómur Hæstarétts sé mikil vonbrigði en hann eigi eftir að kynna sér dóminn.

Þetta er fyrsti Hæstaréttardómur sem fellur í innherjasvikamáli á Íslandi.