Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Baldur: Engin ríkisstjórn í sjónmáli

24.11.2016 - 10:05
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Staðan í íslenskum stjórnmálum hefur sjaldan verið jafn flókinn - bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hafa reynt að mynda starfhæfa ríkisstjórn án árangurs. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnamálafræði, segir boltann enn vera hjá Katrínu sem ætlar að liggja undir feld fram að hádegi.

Katrín sagði í morgun stöðuna vera eins og í púsluspili með sjö stykki sem pössuðu ekki saman. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði,  segir þetta ekki eiga að koma á óvart -  menn hafi búist við því þegar úrslitin í þingkosningunum lágu fyrir að það yrði erfitt að mynda stjórn.

Hann segir boltann þó enn vera hjá Katrínu og ýmsir möguleikar séu í stöðunni. „Hún getur til dæmis athugað hvort Framsókn vilji mynda stjórn en til þess þarf hún að sannfæra Pírata um að vinna með honum. Og Björt framtíð þarf þá að slíta sig frá Viðreisn.“

Katrín geti líka snúið sér til Sjálfstæðisflokksins og séð hvort þar sé grundvöllur fyrir stjórnarmyndunarviðræðum og taka þá með einhvern þriðja flokkinn.

Þorgerður Katrín myndi væntanlega seint flokkast sem nýliði á Alþingi enda var hún bæði þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hún tekur engu að síður sæti sem nýr þingmaður Viðreisnar. - Mynd:  / 
Gamaldagspólitík að kenna einhverjum einum um, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

Baldur segir að margir nefni hugsanlegt samstarf Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar. „En svo er þetta líka spurning hvað er raunhæft og Katrín hlýtur að meta það hvort það sé raunhæft að reyna þetta.“ Ef hún telji svo vera þá hljóti hún að fá eitthvað svigrúm til þess að reyna þetta.

Baldur telur að Viðreisn sé komin í nokkuð þrönga stöðu eftir að hafa tekið þátt í tveimur stjórnarmyndunarviðræðum - flokkurinn virðist hafa slitið viðræðunum í gær og Baldri finnst það blasa við hversu mjög Viðreisn langi til að starfa með Sjálfstæðisflokknum. „Kannski bera einhverjir þá von í brjósti að geta hafið viðræður aftur við Sjálfstæðisflokkinn.“ Það sem geti líka gerst - ef Katrín finnur ekki flöt á nýjum viðræðum -  er að aðrir formenn fái tækifæri til að reyna og það sé ekki útilokað að sömu mynstur verði reynd undir annarri forystu.

Mynd: Óðinn Jónsson  / Morgunvaktin
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir Viðreisn hafa birst sem hefðbundinn hægriflokk.

Baldur telur að menn þurfi að bakka með eitthvað til að hægt verði ná saman og það verði athyglisvert að fylgjast með því. „Sjálfstæðisflokkurinn var ekki tilbúinn að bakka þumlung í sjávarútvegsmálum og Viðreisn vildi ekki bakka neitt í ríkis-og skattamálum í viðræðum flokkanna fimm.“

Menn hafi því ekki virkað neitt sérstaklega viljugir - að minnsta kosti þessir tveir - til að nálgast aðra. „Það sem hefur kannski komið einna helst á óvart er hversu reiðubúnir Píratar hafa verið til að breyta stefnu sinni til að mynda starfhæfa stjórn.“

Baldur segir að líklega yrði það erfitt fyrir Viðreisn að kyngja því að fara í samstarf með Framsókn og Sjálfstæðisflokki vegna yfirlýsinga formannsins um slíkt samstarf bæði fyrir og eftir kosningar - að flokkurinn yrði ekki þriðja hjólið hjá þessum tveimur flokkum.  „ En eftir nokkurra vikna stjórnarkreppu þá fara menn að verða viljugri til að nálgast hvern annan og þá hætta þeir kannski þessum útilokunum og slíðra sverðin til að koma á starfhæfri ríkisstjórn.  Kannski þurfum við fjórar vikur í viðbót til að svo verði.“

Mynd: RUV / RUV
Eiríkur Bergmann segir að það glitti í stjórnarkreppu

Bæði Katrín og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kölluðu eftir því í morgun að þing kæmi saman í næstu viku þannig að hægt yrði að hefja vinnu við fjárlagafrumvarpið. Baldur segir að þing geti vel komið saman til að vinna að fjárlögum þótt ekki sé búið að mynda meirihluta. „En við sjáum hvað það getur orðið erfitt að ná sáttum um fjárlög ef viðræður þessara fimm flokka strönduðu á ríkisfjármálum og útgjöldum ríkisins.“ 

Hann segir að þótt einhverjir formenn þessara fimm flokka sem voru í viðræðum hafi séð þá stjórn sem sína óskastjórn þá verði menn, eins og staðan er í dag, að skoða aðrar leiðir. „Innan VG verður kannski farið að tala jákvætt um að starfa með Sjálfstæðisflokki eða Framsóknarflokki þótt það sé kannski ekki óskastaða.“ Nýir möguleikar verði skoðaðir sem ekki hafa verið upp á borðum. Baldur telur þó að til þess að það gerist  þurfi fleiri að fá að spreyta sig og jafnvel fara í umferð tvö. „Þá eru menn kannski fyrst tilbúnir til að slá af ítrustu  kröfum sínum og mynda ríkisstjórn.“

Hann segist ekki sjá það fyrir sér að ný ríkisstjórn verði mynduð í bráð - stjórnarmyndunarviðræðurnar, bæði formlegu og óformlegu, hafi gengið hægt og menn hafi ekki kafað djúpt í málefnin. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV