Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Bætt geðheilbrigðisþjónusta bjargi milljónum

10.10.2018 - 05:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hægt yrði að bjarga nærri 14 milljónum mannslífa ef tekist yrði á við geðheilbrigðisvanda af fullum krafti um allan heim. Þjónusta við þá sem glíma við geðheilsuvanda er alls staðar verri en fyrir þá sem eru líkamlega veikir. Kvíði og þunglyndi, auk afleiðinga ofbeldis og hörmunga, eru meðal helstu geðheilbrigðismála sem ríki heims kljást við.

Samkvæmt rannsókn 28 sérfræðinga um allan heim er vandinn sagður alþjóðlegur og kominn að hættumörkum. Með aðgerðarleysi er verið að láta fólk þjást að óþörfu, segir í skýrslu þeirra sem birt er í nýjasta hefti læknavísindaritsins Lancet. Alls staðar finni ríki fyrir byrði vaxandi geðheilsukvilla, þrátt fyrir aukna þekkingu á hvernig sé best að takast á við þá. Gert er ráð fyrir að tap ríkjanna vegna vinnutaps einstaklinga vegna geðheilbrigðisvandamála verði um 16 þúsund milljarðar bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 1.800 þúsund milljarða króna. 

Víða er brotið á mannréttindum þeirra sem eiga við geðheilbrigðisvanda að stríða. Illa er farið með fólk, það lokað inni á stofnunum og endar oft á götunni. Guardian hefur eftir Vikram Patel, prófessor við læknaháskóla Harvard að geðheilbrigðisvandamál séu algengasta dánarorsök ungs fólks í heiminum. Talið er að um 13,5 milljónir dauðsfalla megi rekja til geðheilbrigðisvanda sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með réttri meðhöndlun. Víða um heim eiga sjúklingar þó enga von um hjálp. Miðað við rannsóknir í Kína og Indlandi leita um 80 prósent þeirra sem glíma við geðheilbrigðisvanda aldrei eftir aðstoð. Þeir sem leita eftir henni fá oft litla sem enga hjálp.

Oftast er brotið á mannréttindum þeirra sem eru með geðklofa eða berjast við námsörðugleika. Tugir þúsunda eru hlekkjaðir niður heima hjá sér, í tilbeiðslubúðum eða á heilsugæslu. Þegar fólkið er loks losað úr prísundinni er engin eftirfylgni, eða viðvörun við því sem tekur við í hinum frjálsa heimi. Margir verða í kjölfarið handteknir, fangelsaðir, eða deyja langt fyrir aldur fram, segir í skýrslunni.

Greinarhöfundar leggja til að geðheilbrigðismálum verði gert enn hærra undir höfði í heiminum, og þjónusta við þá sem glíma við slíka erfiðleika verði að minnsta kosti á pari við þá þjónustu sem líkamlega veikir fá. Þá er mælst til þess að geðheilbrigðisþjónusta verði hluti af almennri heilbrigðisþjónustu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV