Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bæta þarf 26 lögreglumönnum í landamæravörslu

OZZO
 Mynd: ISAVIA/© OZZO Photography - ISAVIA
Grípa þarf til aðgerða upp á tæpar 900 milljónir til að bregðast við athugasemdum og tilmælum eftir Schengen-úttekt sem framkvæmd var á síðasta ári. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpinu. Úttektin er nokkuð viðamikil og er gerð á fimm ára fresti. Meðal þess sem þarf að gera er að fjölga um samtals 26 stöðugildi lögreglumanna, landamæravarða og í stoðþjónustu.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við fréttastofu að um sjötíu vinni við landamæravörslu hjá embættinu en verði fjárveitingin samþykkt verða þeir um 96.

Ólafur Helgi bendir á að farþegafjöldinn sem hafi farið yfir Shcengen-svæðið hafi meira en fjórfaldast á síðustu fjórum árum.  Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að kostnaðurinn við þetta sé áætlaður um 344 milljónir. 

Þá á að verja 223 milljónum í að endurnýja búnað á landamærastöðvum og til að kaupa og innleiða lífkennaupplýsingakerfi. Í fjárlagafrumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að verja 86,2 milljónum króna til að koma á fót sérstöku greiningarsviði. Þar verða að störfum sex lögreglumenn og sérfræðingar sem eiga að samkeyra og mynsturgreina farþegalistaupplýsingar. 

Jafnframt er lagt til að landamæraeftirlit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri verði efld um 76 milljónir. Bæta á við þremur stöðugildum í Reykjavík og tveimur tímabundnum stöðugildum á Akureyri.

Samhliða þessu er lagt til að fjölgað verði um fjögur stöðugildi hjá ríkislögreglustjóra. Þrír sem eiga að koma á fót miðlægri einingu sem sér um samþætta landmærastjórnun og einn á að vinna greiningarstarf á grundvelli Frontex, landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu.

Loks á að verja 46,2 milljónum til að styrkja mennta-og starfsþróunarsetur lögreglunnar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV