Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bærinn „afskekktur“ og „langt í næstu aðstoð“

Mynd með færslu
 Mynd: Sjúkraflugvél Mýflugs - RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Bæjarráð Hornafjarðar krefst þess að norðaustur/suðvestur-flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli verði opin í neyðartilfellum á meðan aðrar lausnir í sjúkraflutningum séu ekki tiltækar. Bærinn sé afskekktur og langt sé í næstu aðstoð þegar þörf sé á liðsauka.

Bæjarráð Hornafjarðar fór á fundi sínum 30. desember síðastliðnum yfir sjúkraflug sem vakti mikla athygli í fjölmiðlum skömmu fyrir áramót.

Þar kom fram að sjúkraflugvél frá Mýflugi gat ekki flutt hjartveikan sjúkling frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur vegna veðurs heldur þurfti að fara með hann til Akureyrar. Flugmaður hjá Mýflugi sagði í færslu á Facebook að þeir hefðu við þessar aðstæður getað nýtt sér norðaustur/suðvestur-flugbrautina en henni var lokað um mitt síðasta ár.  

Bæjarráð segir í bókun sinni að Hornafjörður sé afskekkt sveitarfélag og ekki sé óalgengt að hringvegurinn lokist annað hvort til austurs eða vesturs, eða jafnvel í báðar áttir, vegna veðurs. Langt sé í næstu aðstoð þegar þörf sé á liðsauka – sjúkrahúsið á Norðfirði sé  í 360 kílómetra fjarlægð og Selfoss í 400 kílómetra fjarlægð „sem er langur akstur með alvarlega veikt fólk.“

Bæjarráð krefst þess því að norðaustur/suðvestur-flugbrautin verði opin í neyðartilfellum á meðan aðrar lausnir séu ekki tiltækar. „Það er grundvallaratriði að á hverjum tíma séu tryggðar samgöngur af landsbyggðinni við Landspítala Háskólasjúkrahús sem hefur þá skyldu að sinna neyðarþjónustu við alla landsmenn.“

Í yfirlýsingu frá ráðuneytinu í síðustu viku kom fram að ráðuneytið væri með það til skoðunar hvort hægt væri að opna á ný norðaustur/suðvestur-flugbrautina í Keflavík sem hefur verið lokuð undanfarin ár. Þá hefur stjórn Sambands slökkvliðs- og sjúkraflutningamanna lýst yfir þungum áhyggjum af ástandinu í sjúkraflugi og krafist þess að innanríkisráðherra beiti sér fyrir því að flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli verði opnuð á ný, án tafar.