Bændur merkja músadauða eftir gosmengun

11.11.2014 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Bændur í kringum Höfn í Hornafirði hafa fundið talsvert af dauðum hagamúsum sem virðast hafa drepist skyndilega.

Á bænum Fornustekkum í Nesjum sáu bændur dauðar mýs í lægðum og settu í samband við mikla gosmengun frá Holuhrauni. Metstyrkur af brennisteinsdíoxíði mældist á þessum slóðum í lok síðasta mánaðar skömmu áður en músardauðinn uppgötvaðist. „Við fórum í smalamennsku nokkrum dögum á eftir og þá var þetta svona orðið,“ segir Bjarni Sigjónsson, bóndi í Fornustekkum. „Það er bara eins og mesta mengunin hafi verið í lægsta punkti. Þær voru nokkuð margar; ég hef aldrei séð svona margar dauðar mýs í einu. Þetta var líka uppi á túni hjá okkur,“ segir Bjarni. Hann vill þó ekki fullyrða að þetta hafi verið vegna gosmengunar.

Sömu sögu er að segja frá Lóni austan við Hornafjörð. Kristín Jónsdóttir, bóndi í Hlíð, segir í samtali við fréttastofu að mikið af músum hafi sést þar í haust. Þær drepist yfirleitt í skúmaskotum og mjög óvenjulegt sé að sjá þær liggja dauðar á berangri. Hún sjálf hafi fundið ófáar andvana á gólfum í útihúsum.

Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrustofu Suðausturlands er helst að leita skýringa í einhverju sem mýsnar hafi étið eða mengun í lofti. Nú sé of seint að framkvæma krufningu til að skera úr um það.

Mikill músagangur
Og meira af músum því mikill músagangur er á Héraði og mögulega víðar á Austurlandi. Boði Stefánsson, meindýraeiðir á Egilsstöðum, staðfestir þetta og ráðleggur fólki að hafa svaladyr ekki opnar. Þá séu dæmi um að mýs skríði upp steinda veggi og komist þannig inn um glugga. Hann segir dæmi um að bændur í nágrenni Egisstaða hafi fengið mýs inn í bíla og traktora en þær geta nagað rafkerfi ökutækja og valdið miklum skaða. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi