Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Bændur á tánum víða um land

27.08.2013 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka Sauðfjárbænda og bóndi á Grýtubakka ræddi yfirvofandi óveður í morgunútvarpi Rásar tvö í morgun. Hann sagði að bændur væru í viðbragðsstöðu gagnvart helginni, tilbúnir í göngur.

„Hér eru menn að taka sig til og bíða eftir veðurspá klukkan 10. Við sjáum hvernig sú spá er en ég reikna svona frekar með því að við munum leggja  í hann í dag,“ segir hann.

Þórarinn Ingi segir að áhersla verði lögð á að aðstæðurnar frá því í fyrra endurtækju sig ekki.  „Það virðist vera þannig bæði með bændur og veðurstofuna að menn eru vel á tánum og ætla ekki að taka neina óþarfa áhættu og lenda þá í sama veseni og við lentum í í fyrra,“ segir hann.

Aðspurður segir hann mögulegt að ná fé inn fyrri helgi. „Sum svæði teljum við að séu ekki í sömu hættu og önnur svæði, þannig að það verður ekki farið yfir allt landið eins og við gerum venjulega en við tökum þau svæði sem við teljum að sé brýnt að sinna.“

Aðspurður segir Þórarinn að bændur séu almennt ekki áhyggjufullir. „Nei, við erum það nú ekki. Við erum bara tilbúnir að takast á við verkefnið, og erum nokkuð brattir,“ segir hann.  

Norðlendingar bíða eftir nákvæmari veðurspá fyrir helgina. Skelli illviðri á gæti þurft að koma 300.000 kindum af fjalli, fresta viðburðum og loka hálendinu. Í gær funduðu Almannavarnir og fjallskilastjórar víða á Norðurlandi og ræddu hvort flýta eigi göngum svo hægt verði að koma fé af fjalli fyrir helgi. Spáð er illviðri með stormi og snjókomu norðanlands um helgina. 

300.000 kindur á fjöllum

Ljóst er að víða eiga bændur ekki gott með að komast í göngur, enda heyskapur enn í fullum gangi. Bændur vilja þó hafa vaðið fyrir neðan sig, enda septemberáhlaupið í fyrra flestum enn í fersku minni en þá urðu margir fyrir miklu tjóni. Svæðisfulltrúar Almannavarna funduðu með bændum og fjallskilastjórar hafa haft samband við gangnafólk til að athuga hvort hægt sé að kalla það til með stuttum fyrirvara. Talið er að um 300.000 kindur séu á fjöllum nyrðra en ráðgert var að hafa flestar göngur og réttir um miðjan september.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Húsavík verður skoðað hvort grípa þurfi til aðgerða á hálendinu vegna ferðafólks. Þá hafa skipuleggjendur Akureyrarvöku, sem halda á um helgina, rætt málin enda ljóst að veðrið gæti haft áhrif á dagskrá hátíðarinnar, en fjöldi viðburða er utandyra. Hulda Sif Hermannsdóttir, verkefnastjóri hjá Akureyrarstofu, segir að til greina gæti komið að færa alla dagskrána aftur um einn dag. 

Þórarinn Ingi sagði í samtali við fréttastofu í gær að raunsætt væri að koma flestu fé niður af fjöllum í tæka tíð, þótt sum svæðin væru það stór að að marga daga tæki að smala af þeim. „Engan bónda langar að lenda í því sama og í fyrra. Menn ætla ekki að vera í kæruleysisgangi með það hvort þeir ætla að fara eða ekki, því ef veðurspáin segir til um að veðrið verði svona, þá förum við,“ sagði hann.