Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar til L-listans

Mynd með færslu
 Mynd:
Preben Jón Pétursson, bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar á Akureyri, hyggst vinna með L-listanum í komandi sveitarstjórnarkosningum. Björt framtíð ætlar ekki að bjóða fram í sveitarfélaginu. Preben ætlar ekki að taka sæti ofarlega á lista L-listans, en verður mögulega kosningastjóri flokksins.

Preben hefur verið bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar á Akureyri síðan 2014. Hann var oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningunum 2016, en náði ekki kjöri.

Björt framtíð býður ekki fram á Akureyri

Nú hefur verið ákveðið að Björt framtíð bjóði ekki fram á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum, 26. maí. Preben ætlar að vinna með L-listanum, en segir að Björt framtíð sé enn starfandi í bænum og hann ætli að ljúka kjörtímabilinu sem bæjarfulltrúi flokksins. 

„Það fólk sem hefur starfað innan Bjartrar framtíðar á Akureyri geta farið að vinna að sveitarstjórnarmálum þar sem þeim hugnast og í því umhverfi,” segir Preben. Hann segist ekki vita til þess að nokkur úr Bjarti framtíð sé kominn á lista hjá öðrum flokkum enn sem komið er. Þó sé fólk vissulega að ræða saman og enn sé töluverður tími í kosningar. Sjálfur segist hann ekki ætla að taka sæti ofarlega á lista L-listans. 

Verður mögulega aftur kosningastjóri L-listans

„Ég er gamall L-lista maður og var kosningastjóri hjá þeim 2010,” segir Preben. Spurður hvort hann taki aftur við því starfi aftur í komandi kosningum segir hann það mögulegt, þó að það hafi ekki verið formlega ákveðið. Framboðslisti L-listans verður tilkynntur 18. mars, á 20 ára afmæli flokksins. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður