Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bæjarfulltrúar leggjast gegn smásölu áfengis

07.03.2017 - 17:09
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkti í dag ályktun um áfengisfrumvarpið svokallaða, þar sem Alþingi er hvatt til þess að hafna frumvarpinu. Ályktunin var samþykkt með meirihluta atkvæða en bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Baldvin Valdemarsson sat hjá. Hann sagðist þó ekki styðja frumvarpið, heldur gerði hann athugasemdir forsendur ályktunarinnar.

Í bókuninni segir að sveitarfélög hafi á síðustu árum eflt forvarnarstarf gegn áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna með góðum árangri. Þá sögðust nokkrir bæjarfulltrúar vera óánægðir með að í frumvarpinu væru skyldur lagðar á herðar sveitarfélaga, en þær snúa meðal annars að eftirliti og leyfisveitingum. Ekki hefði verið haft samráð við sveitarfélögin um slíkt.

Ályktunin hljóðar svo: „Bæjarstjórn Akureyrar hvetur alþingismenn til að hafna frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um breytingu á lögum nr. 86 frá 2011 um verslun með áfengi og tóbak.

Sveitarfélög hafa síðustu 20 árin eflt forvarnir gegn áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna með góðum árangri. Í nýjustu evrópsku vímuefnarannsókninni sem er frá árinu 2015 kemur fram að íslenskir unglingar eru ólíklegri en evrópskir unglingar til að hafa drukkið áfengi. Landlæknir, heilbrigðisstarfsfólk, samtök lækna og fjölmargir aðrir sem vinna að heilsueflingu og velferðarmálum vara við þeirri breytingu sem felst í samþykkt frumvarpsins og benda á að rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi, sem verður með mikilli fjölgun sölustaða, leiðir til aukinnar neyslu, meðal annars meðal barna og ungmenna. Verði frumvarpið samþykkt stangast það á við stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuefnavörnum, vinnur gegn forvarnarstarfi sveitarfélaga undanfarin ár auk þess að stangast á við aðgerðaráætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gegn lífsstílstengdum sjúkdómum sem og nýlega samþykktum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. 

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar leggur mikla áherlu á forvarnastarf og setur í forgang að búa börnum og ungmennum sem best uppvaxtarskilyrði. Heilsa íbúa, hagsmunir og velferð barna og ungmenna eiga að njóta forgangs í allri stefnumörkun ríkisins. Aukið aðgengi að áfengi og áróður í formi áfengisauglýsinga gengur gegn því sjónarmiði.“

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV