Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Baðstofan er það fallegasta sem við höfum gert

Mynd: Tempest Anderson / Hannes Lárusson

Baðstofan er það fallegasta sem við höfum gert

15.01.2016 - 13:25

Höfundar

„Það er enginn vafi í mínum huga að baðstofan er fallegasta og þróaðasta rými sem við höfum búið til á Íslandi,“ sagði Hannes Lárusson, myndlistarmaður, á Morgunvaktinni á Rás 1, og líkti menningarsögulegu gildi íslenska torfbæjarins við fornritin.

Hannes og fjölskylda starfrækja „Íslenska bæinn“ í Austur-Meðalholtum í Flóahreppi - og nú leitar Hannes til almennings um ljósmyndir úr baðstofum, sem hann hyggst nota við rannsóknir, í sýningar og vegna bókaskrifa. 

Menningarsetrið „Íslenski bærinn“ varð til fyrir um einu og hálfu ári. Þar er lögð rækt við þetta merka framlag Íslendinga til húsagerðar, torfbæinn, sem sannarlega má nefna vöggu íslenskrar menningar. „Íslenski bærinn“ er í Flóanum, ekki langt frá Selfossi, þyrping húsa, sýningar- og samkomustaður. Þar geta gestir dregið í sig þennan gamla anda en líka fræðst um torfbæinn á sýningum, þar sem arfur okkar er kynntur og túlkaður.

Það er Hannes Lárusson, myndlistarmaður, og fjölskylda sem að þessu standa. Hannes sagði á Morgunvaktinni að viðtökur hefðu verið góðar, bæði frá Íslendingum og útlendingum. Þörfin væri augljóslega mikil. Hann sagði að það gengi hinsvegar heldur hægt að Íslendingar viðurkenndu mikilvægi torfbæjarins sem framlags Íslendinga til sögu byggingasögu heimsins. Torfbærinn, þessi húsaþyrping, hefði þróast hér í 25 kynslóðir.

„Þetta er á vissan hátt stöðnun, en stöðnun er á vissan hátt forsenda þess að menn nái fágun. Ef menn endurtaka eitthvað nógu oft, þá endar með því að þeir verða góðir í því. Við nánari skoðun á íslenska torfbænum þá eru mjög margir verklegir og fagurfræðilegir þættir mjög þróaðir - fínlegir, flóknir og dularfullir,“ segir Hannes Lárusson, og bætir við að upplifunin að ganga inn í torfbæ sé engu öðru lík. Hann segir eitt aðaleinkenni torfbæja vera fjölbreytni, þeir hafi verið lagaðir að aðstæður, búskaparháttum og lífsstíl, staðháttum og landslagi. 

Nú leitar Hannes Lárusson til almennings um aðstoð við að safna saman ljósmyndum innan úr baðstofum, sem víða voru í notkun fram til um 1960. Þessar myndir ætlar hann nota við rannsóknir, uppsetningu sýninga og bókaskrif. Þeir sem sýna þessu áhuga ættu að hafa samband við Hannes Lárusson í símum 694 8108,
864 4484 eða 892 2702. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu Íslenska bæjarins.

Meðfylgjandi ljósmynd er tekin af Tempest Anderson í baðstofunn á Galtalæk árið 1893.